Að vera sjálfum sér trúr
Vikan, 18. september 1975.
Viðtal við Benedikt Gunnarsson listmálara.
Benedikt Gunnarsson er vestfirðingur, fæddur á Suðureyri við Súgandafjörð. Þar komst hann fyrst í snertingu við myndlistina þótt í smáu væri, en þau kynni voru nóg til þess, að hann lagði stund á listnám. Benedikt hefur haldið fjölda einkasýninga á verkum sínum, bæði hér heima og erlendis, og hefur auk þess tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um heim. Málverk Benedikts eru því kunn fleirum en Íslendingum og verk eftir hann eru í mörgum söfnum erlendis, meðal annars í Sviss, Mexíkó, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi. Auk málverkanna hefur Benedikt gert allmargar vegg- og glermyndir, bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila.
Nýlega fórum við á stúfana og heimsóttum Benedikt Gunnarsson listmálara suður í Kópavog, þar sem hann býr og málar. Eins og títt er um Íslendinga gátum við ekki komið í hús hjá fólki, án þess að spyrja, hvort húsráðendur hefðu sjálfir byggt. Benedikt játti spurningunni og kvað það hafa verið merkilega lífsreynslu að byggja hús — hann hefði komið að svo til ósnertu landi og raskað því með þeim umsvifum, sem húsbyggingu fylgir. Meðal annars sagði Benedikt fallegt krækilyng hafa gróið í holtinu, þar sem nú stendur stofa hans. Þetta krækilyng hefði hann reynt að flytja, en það hefði ekki slegið rótum á nýjum stað. Síðar kvað hann grasafróða menn hafa sagt sér, að krækilyng þyldi ekki, að við því væri hróflað — þá fölnaði það og dæi.
Kvöldmáltíðin. Þetta verk Benedikts mun prýða Breiðabólsstaðarkirkju á Skógarströnd.
Ekki sagði Benedikt, að hann hefði hætt að mála meðan á húsbyggingunni stóð — því hefði hann haldið áfram sleitulaust þrátt fyrir byggingarstreituna og kórónað verkið með því að halda málverkasýningu í húsinu hálfköruðu, og sú sýning hefði nægt til þess að rétta við fjárhagshlið byggingarinnar. Þó hefði verið spáð heldur illa fyrir sýningunni, þar eð menn töldu fólk ekki hafa nægan áhuga á málaralist til þess það sækti sýningar svo langt út fyrir miðborg Reykjavíkur. Sín reynsla hefði hins vegar orðið allt önnur — aðsókn hefði verið góð, enda stæðust engir sýningarsalir samanburð við heimahús, því að þar fengist hið rétta samband húss og málverka.
Að loknum þessum inngangi um húsbyggingar og krækilyng, bárum við upp okkar eiginlega erindi — að kynnast Benedikt sjálfum ofurlítið og fræðast af honum um listina — og byrjuðum á að leggja fyrir hann þá spurningu, hvenær hugur hans hefði fyrst hneigst til málaralistar.
— Ég var ungur, þegar áhugi minn á myndlist vaknaði, og átti þá heima vestur á Suðureyri. Bræður mínir fengust töluvert við að teikna og mála, og við það skapaðist andrúmsloft á heimilinu, sem varð til þess, að Veturliði bróðir minn og ég tókum myndlistina alvarlega og lögðum út í listnám. Þetta var á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, og þótt heldur vænlegra væri fyrir okkur yngri bræðurna að leggja þetta fyrir okkur en þá eldri, þótti eigi að síður heldur lítið vit í því og auðvitað var listnám mikil áhætta frá fjárhagslegu sjónarmiði — enn meiri en nú er, því að síðan hefur listaverkasala aukist mikið. En ætli menn að leggja listir fyrir sig, hugsa þeir ekki svo ýkja mikið um fjárhagslegan ábata af því. Það er eins og listin ólgi meira í mönnum en áhugi á öðrum störfum eins og til dæmis lögfræði.Ég held þetta stafi af því, að til þess að ná árangri í listsköpun verða menn að taka á öllu, sem þeir eiga til, og gefa mikið af sjálfum sér. Ég held þarna sé líka að finna skýringuna á því, hve listamönnum — og þá á ég einkum við myndlistarmenn — er oft legið á hálsi fyrir, hve ómannblendnir og einrænir þeir séu. Til þess að ná árangri verða þeir einfaldlega að loka sig inni við vinnu. Þegar þeir hafa lokið henni með verki, eða hluta af verki, held ég þeir séu ekki síður en aðrir fúsir til að blanda geði við annað fólk.
— Hvar stundaðir þú listnám?
— Ég var við nám í Myndlista- og handíðaskólanum undir handleiðslu Kurts Zier, og að því loknu hélt ég til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn og síðar í Frakklandi. Ég held Kurt Zier hafi haft hvað mest áhrif á mig allra manna, ekki síst fyrir þá sök, að eftir að ég kom heim frá námi erlendis, starfaði ég við kennslu með honum í Myndlistaskólanum, þar sem hann var þá orðinn skólastjóri aftur. Að vinna þannig með fyrrverandi kennara mínum var mér ómetanleg reynsla, sem ég bý að enn.
— Þú starfar enn við kennslu?
— Já ég fór að kenna við Kennaraskólann 1966 og hætti þá kennslunni í Myndlista- og handíðaskólanum að mestu leyti. Skiptin voru bæði góð og slæm. Góð að því leyti, að við Kennaraskólann varð ég fastur kennari, en hafði verið stundakennari í Myndlista- og handíðaskólanum. Hitt var sýnu erfiðara að sætta sig við, að myndlistin er vitaskuld ekki aðalgrein í Kennaraskóla og því ekki sambærilegt kapp í nemendum hans og Myndlistaskóla hvað myndlistina snertir. Þessu mætti kannski líkja við það að hafa verið að þjálfa fyrstu deildarlið í knattspyrnu, þar sem allir eru ákveðnir í að komast í landsliðið, og fara síðan að þjálfa fimmta flokk, þar sem enginn kærir sig um að komast upp úr fimmta flokki. Þar fyrir hef ég átt margar góðar stundir með kennaranemum. Þetta er ungt fólk og í þess hópi eru margir ofurhugar — óhræddir og með opinn hug. Og í skólum er alltaf svo mikil gerjun. Þess vegna er á margan hátt gott fyrir listamann að starfa með skólafólki.
Ásdís Óskarsdóttir, kona Benedikts, Gunnar Óskar og Valgerður börn þeirra, Benedikt og Eros.
— Kennslan í Kennaraskólanum er eins og gefur að skilja allt öðruvísi byggð upp en í Myndlista- og handíðaskólanum, fremur miðuð við að vekja fólk til umhugsunar og vitundar um listir en að þjálfa það til listsköpunar. Í þessu skyni er leitast við að leggja áherslu á kennslu í listasögu og safnferðir, sem hvort tveggja er nauðsynlegt til að fá svolitla heildarmynd af listinni. Mér er sérlega minnisstæð ein slík ferð á safn Einars Jónssonar í Hnitbjörgum. Með í hópnum var fólk, sem hafði alist upp í grennd við Skólavörðuholtið án þess að hafa nokkurn tíma leitt hugann að þvi, hvað væri í þessu mikla húsi þar. Svo kom það inn á safnið og því opnaðist nýr heimur. Kannski féll því ekki stíll og viðfangsefni Einars, en þó játuðu sumir fyrir mér, að þeir fyrirverðu sig hálft í hvoru fyrir að hafa gengið framhjá Hnitbjörgum ár eftir ár, án þess að gefa þeim menningararfi, sem varðveittur er þar innan dyra, gaum. Þetta sama fólk var án efa allvel að sér um flesta samtímamenn Einars í bókmenntunum.
— Mannkynssagan, sem kennd er í íslenskum skólum, er fyrst og fremst styrjaldarsaga og herkonunga. Húmaníski þátturinn hefur farið forgörðum um of. Þetta tel ég illa farið, því að hann í senn lífgar og fyllir upp mannkynssöguna. Ef við vitum, hvernig fólk klæddist, á hveriu það nærðist, í hvernig húsakynnum það bjó og hvernig það tilbað guði sina í listinni, en þar hefur mannsandinn oft náð hæst, verður sagan allt í einu lifandi og skemmtileg. Stundum, þegar éghef verið að tala um til dæmis egypska list í kennslustundum, þykist ég hafa lesið forundan út úr andlitum nemendanna: Hvernig stendur á því, að maðurinn hefur svona mikinn áhuga á þessu? og ég hef verið spurður: Hvað kemur okkur þetta við? Þrjú—fjögur þúsund ára gömul listaverk! Til hvers þurfum við að kunna skil á þeim? Svarið er einfalt: Í þessum verkum talar sagan beint og milliliðalaust til okkar — af þeim getum við dregið lærdóm og þekkingu — skilning — án þess til komi nokkur túlkun annarra en listamannsins, sem vann þessi verk endur fyrir löngu. Samtími hans speglast í verkum hans. Við spurningunni: Hvað kemur þetta okkur við? eru raunar til fleiri svör. Eitt er, að auðvelt er að nefna dæmi um tengsl egypskrar listar og verka þekktra myndhöggvara samtímans á vesturlöndum. Þangað sækja þeir þrótt og þor — og hugmyndir að tjáningarformi. Einn þessara manna er Ásmundur Sveinsson. Og þegar hægt er að benda fólki á höggmynd eftir Ásmund Sveinsson, sem stendur á almannafæri í Reykjavík, og rekja tengsl hennar og egypskra listaverka, sem sköpuð voru fyrir þrjú til fjögur þúsund árum, gera flestir sér ljóst, að egypsk list er þeim ekki óviðkomandi. Hið sama er að segja um list annarra heimshluta og annarra tímabila. Listasagan er brunnur, sem við getum öll teigað af og ég tel ákaflega mikilvægt að sinna henni meira í almennum skólum en gert hefur verið. Eins þarf að víkka það svið listar, sem hér hefur verið kynnt. Okkur hættir við að einblína um of á vesturevrópska list og teljum okkur jafnvel of góð til að skoða list Asíuþjóða, suður- og miðameríska og afríska list, og er listin þó víða háþróuð og ákaflega fjölbreytt í þessum heimshlutum. Hvað þá, að frumstæðri primitívri- og alþýðulist hafi verið sýndur fullur sómi. Um hana hafa menn iðulega verið harðorðir, en það skyldi varast, því án hennar verður engin list til. Þar er jarðvegurinn, sem atvinnulistamenn spretta úr. Ef við göngum um Þjóðminjasafnið og skoðum þar íslenska list frá liðnum öldum, og höfum í huga þær aðstæður, sem hún var sköpuð við, og verkfærin, sem hún var sköpuð með, hljótum við að fyllast aðdáun og hrifningu af elju listamannanna og þrautseigju. Þeir lögðu allt, sem þeir áttu til í verk sín. Því standast þau og okkar er að þakka þann arf, sem þeir létu okkur eftir, og læra af honum.
— Listasagan getur einnig stuðlað að því að eyða fordómum. Í verkum listamannanna nálgumst við þá menningu, sem þau eru sprottin úr, og fátt er líklegra til að auðvelda okkur skilning á ólíkum þjóðum.
— Svo við snúum okkur að þinni eigin listsköpun, Benedikt. Hvenær hélstu fyrstu opinberu sýninguna á myndum þínum?
— Hana hélt ég í París árið 1953. Allar myndirnar á þeirri sýningu voru harðsoðið abstrakt. Nú er ég fyrir löngu vaxinn frá abstraktinu í þeim skilningi, að ég mála ekki lengur hreinar abstraktmyndir, en þar fyrir er ég ekki einn þeirra manna, sem líta á abstrakttímabilið sem eins konar fangavist eða nauðungarvinnu, en það viðhorf hefur komið fram hjá sumum málurum, og þeir tala þá gjarnan í einhverjum fyrirlitningartóni um abstraktlistina. Það felli ég mig ekki alls kostar við, því að abstraktmyndlist krefst ákaflega mikillar ögunar í formi, og af henni spratt margt gott — einkum hjá málurum, sem höfðu reynslu að baki, þegar abstraktið tók að ryðja sér til rúms, og kunnu því að varast ungæðisháttinn, sem var því samfara. Þótt þessir menn hafi flestir hætt að mála abstrakt, má sjá áhrif abstraktlistarinnar í síðari verkum þeirra, og þar sést að þeir hafa sitt hvað af því lært.
— Þessa sama viðhorfs og kemur fram í hálfgildings fyrirlitningu á abstraktinu gætir einnig, þegar menn afgreiða heil tímabil listasögunnar með því, að þau séu liðin og þeir geti ekkert af þeim lært. Þetta álít ég mjög slæmt, því að um leið og litið er framhjá einhverju tímabili, einhverjum stíl og einhverri tækni, er hætt við brestum í undirstöðunni. Þarna held ég líka, að ástæðunnar til þess, hve margir gefast upp eða staðna við listsköpun, sé að leita.
Á vinnustofu Benedikts.
— Síðan sól abstraktsins dofnaði hefur enginn einn stíll ráðið lögum og lofum í myndlistinni. Er ekki erfitt að hafa engan stórasannleik?
— Það er rétt, að nú er miklu meiri breidd í málaralistinni en var um skeið. Ég held það sé góðs viti, að leitað er til margra átta í senn. Hvað sannleikann áhrærir býst ég við, að menn verði að gera sig ánægða með þann sannleik að vera trúir sjálfum sér og sinni vinnu — og stöðugt leitandi. Þegar menn fara að fást við sömu viðfangsefnin aftur og aftur og nálgast þau ætíð á sama hátt af ótta við, að þeim gangi illa að selja verk sin, er hætt við að illa fari. Listamenn eiga að túlka viðfangsefni úr samtímanum — sá er tilgangur listar — og nálgast þau frá sem flestum sjónarhornum og með eigin aðferðum. Þá er tilganginum náð.
— Hvað ertu einkum að fást við sem stendur?
— Undanfarið hef ég æ meira fengist við portrettmálun. Andlitið er stórkostlegt viðfangsefni, sem ég hef gaman af að fást við, og svo er um fleiri málara að ég held, því að portrettmálun er að færast mjög í vöxt. Þegar skapa á listaverk úr portrettmynd, er auðvitað best að fyrirmyndin sitji fyrir, en á hinn bóginn leik ég mér stundum að því að mála portrett eftir ljósmyndum — jafnvel úr dagblöðum. Þá aðferð viðhafði ég, þegar ég málaði Feisal hinn arabíska, sem skotinn var af frænda sínum í vetur. Hann hafði stórkostlegt andlit — það var eins og Landmannalaugar.
Annan og mér einkar hugstæðan útlending hef ég einnig málað — þann merka þjóðhöfðingja David Ben Gurion. Ég sá hann, þegar hann var hér á ferð á sjötta áratugnum og fann þá hjá mér einhverja hvöt til að gera af honum nokkrar skissur.Síðar vann ég úr þessu og loks varð úr því málverk af David Ben Gurion, sem ég hafði á sýningu fyrir tveimur árum. Að sýningunni lokinni kom mér í hug.hvort ekki væri viðeigandi að gefa sendiherra Ísraels á Íslandi, sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn, þessa mynd. Fyrir milligöngu Aðalsteins Eggertssonar ræðismanns Ísraelsmanna hér, kom sendiherrann til mín, þegar hann var hér á ferð, skoðaði myndina og féllst á að þiggja hana að gjöf. Honum þótti best við hæfi, að myndin yrði varðveitt á minningarsafni um David Ben Gurion í Beerseba í Ísrael, og þangað verður hún send innan tíðar. Annars hefur portrettmálun alltaf verið ofarlega í mér — kannski af því, að einn fyrsti myndlistarhvati, sem ég varð fyrir, voru myndskreytingar í dönskum vikublöðum. Þó þær séu oft haglega gerðar, þykja þær ekki merkileg list og eru það ekki, en vestur á Suðureyri þar sem engar myndlistarbækur voru til og engin myndlist yfirleitt, nema í landslaginu, voru þær nóg til þess að kveikja í mér og bræðrum mínum löngun til að spreyta okkur á því að teikna andlit.