Málverkasýning í sýndarveruleika

Ég hef á undanförnum mánuðum unnið að þrívíddarlíkani af húsinu sem afi minn, Benedikt Gunnarsson listmálari, og amma mín, Ásdís Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur, áttu. Þau eru bæði látin; afi lést í nóvember 2018 og amma mín rúmum tveimur árum fyrr.
K13-úti.jpg

Þrívíddarlíkanið er búið til úr 1500 ljósmyndum sem teknar voru í mars 2019. Líkanið verður undirstaða sýningar á yfir 200 myndverkum afa sem dreifð voru um húsið á þeim tíma en þá hafði allt annað verið tæmt þaðan.

Nokkrum dögum síðar var húsið afhent nýjum eigendum en mörg verkanna fóru á hin ýmsu listasöfn á landinu utan eitt, sem fékk að fylgja húsinu. Málverkin snúa á ýmsa vegu þarna eins og gengur, sum á ská, sum á hvolfi, sum á hlið. Og önnur rétt.

Sýningunni er ekki ætlað að vera yfirlitssýning á verkum afa. Hún endurspeglar hins vegar sérstakt andartak, rétt áður en hringnum var lokað, en það fyrsta sem flutt var inn í húsið voru einmitt málverk afa en húsið var vígt með málverkasýningu hans árið 1967 og verkunum komið fyrir í hverju skoti, rétt eins og við gerðum síðan í mars í fyrra.

Í stað þess að bjóða gestum að koma á staðinn tökum við tæknina í okkar þjónustu og hver og einn getur skoðað sýninguna að heiman frá sér, með eða án sýndarveruleikagleraugna.

malverkasyning.png

Vinnan er komin nógu langt til að ég treysti mér að deila skjáskotum og vinnumyndum. Myndirnar verða settar inn á þessa síðu fyrir áhugasama.

Síðar er hugmyndin að útbúa annars konar stafræna yfirlitssýningu á verkum afa. Þar gefst mönnum kostur á að skoða fjölmörg verka hans sem ljósmynduð hafa verið, á hvítum grunni. Hægt verður að smella á hverja mynd og fá upplýsingar um heiti þess, efnivið, ártal, mál og fleira.