Tíminn Sunnudagsblað - 30. tölublað (08.08.1965)_a.jpg

Í Mexíkó og Bandaríkjunum

Tíminn, Sunnudagsblað, 08. ágúst 1965.

Benedikt Gunnarsson listmálari kom fyrir stuttu heim úr langri ferð um Bandaríkin og Mexíkó, og varla var hann fyrr búinn að draga að sér andann aftur á íslenzkri grund en við vorum kominn á stúfana að ónáða hann.

— Ég er enn þá að jafna mig, segir Benedikt, — borða og sofa, það er indælt að koma heim og fá almennilegar soðnar kartöflur, í Mexíkó eru þær alltaf steiktar í olíu og eyðilagðar alla vega. Yfirleitt fannst mér maturinn þeirra hræðilegur. Ég sárbrenndi mig í tunguna, ef ég bragðaði á honum, það er kryddið, chili, sem er svo sterkt, en þeir eru færir matreiðslumenn og ekki skortir fjölbreytnina.

Annars var ferðin stórkostleg, og ég er eins og nýr maður. Ég var fyrst í Bandaríkjunum og skoðaði þar mörg söfn, aðallega í Washington og New York. Bandaríkjamenn eiga mikið af skemmtilegum söfnum bæði í eigu hins opinbera og eins í einkaeign. Þeir hafa keypt mikið og eflaust stolið einhverju, víðs vegar að úr heiminum, talsvert er líka af Indíána- og negra list. Í Washington er mikið af söfnum, þeir eru að reyna að gera hana að menningar og listamiðstöð. Hér skal ég sýna þér myndir af vinum mínum á náttúrugripasafninu í Washington. Risaeðlurnar Dinosaurus og Tyranosaurus. Þessar beinagrindur hafa þeir sett upp, þær eru nú engin smásmíði, tennurnar í kjötætunni eru til dæmis fimmtán sentimetra langar, það eru ákaflega falleg bein í þessum skepnum. Söfnin eru yfirleitt mjög vel skipulögð og uppsett og sérhver hlutur fær að njóta sín. Þó jafnaðist ekkert á við fornminja- og mannfræðisafnið í Mexíkó. Ég var eins og steini lostinn af hrifningu, ég stanzaði og glápti eins og krakki, og þegar ég fór örlítið að jafna mig, held ég, að ég hafi tautað, — ja mikið þó helvíti maður! Þetta safn er alveg nýtt og allt saman jafn stórkostlegt, húsið, skipulagningin, lýsingin . . . Mikið var notuð punktlýsing og reynt að gera hana sem eðlilegasta og líkasta aðstæðunum úti. Stundum kom hún að ofan eins og sól væri hátt á lofti, annars frá ýmsum hliðum. Þarna var ekki hægt að ganga nema eina leið, hringferð um hverja deild, vildi einhver skoða aftur, varð að fara annan hring. Mér varð hugsað til safnsins okkar hér heima, sem verið er að hola niður í Sveins Egilssonarhúsinu innan um annað dót, eftir áralanga legu í einhverjum kjallara. Ég hef alltaf verið sérstaklega hrifinn af náttúrugripa- og fornminjasöfnum.

Ég sá heimssýninguna í New York. Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum með hana, ég hafði haldið, að hún væri enn þá glæsilegri en raun bar vitni, hún var ekki nógu menningarleg, það var hálfgerður verzlunarbragur á öllu. Málverkasýningarnar voru yfirleitt litlar, en þó voru þarna nokkur merkileg verk. Og Pieta eftir Michelangelo var þar komin úr Vatikaninu. Yfir hana var byggt heilt hús, og fólkið flutt í gegn um það á færibandi til að tryggja það, að þröng myndaðist ekki við hana.

Ég held, að það sé mikil gróska í bandarísku listalífi, þó að ég sé ef til vill varla dómbær á það, því að ég var þar svo stuttan tíma. Ég skipti dvölinni niður á tvö lönd, Bandaríkin og Mexíkó.

—Lágu einhverjar sérstakar ástæður til þess að þú lagðir upp í þessa löngu ferð núna?

— Ég hafði lengi haft hug á Mexíkó og grun um að þar væri ýmislegt fróðlegt að sjá og sama má segja um Bandaríkin.

En draumurinn varð ekki að veruleika, fyrr en ég fékk styrkina. Annan styrkinn fékk ég frá Félagi íslenzkra myndlistarmanna, það er styrkur, sem dregið er um. Listahjón hér í bæ stofnuðu sjóð til styrktar íslenzkum myndlistarmönnum, og hefur vöxtunum verið varið í ferðastyrki. Nokkru seinna fékk ég einnig styrk frá Menntamálaráðuneytinu, svo að ég gat farið að hugsa mér til hreyfings.

Á ég að sýna þér minjagripi frá Mexíkó?

Þessar styttur hérna eru eftirmyndir, frummyndirnar má ekki fara með út úr landinu. Þeir eru afar snjallir að gera svona eftir gömlum styttum. Flestallar eru úr brenndum leir, um það bil 40 eða 50 cm háar. Hér er eitthvert fornt goð og þetta er myndarfrú með könnu og skál í höndunum, og þeir eru svo gamansamir, að þeir hafa útbúið i henni flautu. Það eru heilir markaðir fullir af svona munum hjá þeim. En svo eru líka til í landinu risastyttur eins og steinhermennirnir í Tula, þeir standa uppi á einum pýramídanna, fjögurra mannhæða háir og afar virðulegir. Ég fór inn í einn pýramídann, hann er stærstur í heimi, að ummáli stærri en pýramídar Egyptalands en ekki mjög hár. Það var ekki uppgötvað, fyrr en 1937 að þetta væri pýramídi, hann var orðinn svo þakinn gróðri, að hann var eins og venjuleg hæð í Iandslaginu. Eiginlega er hann sjö pýramídar hver ofan á öðrum. Inni í honum eru þröng göng upp í gegnum alla bygginguna, og sums staðar eru smáútskot, ég veit ekki til hvers þau voru. Þarna inni sá ég nokkur veggmálverk. Þetta var eini pýramídinn, sem ég komst inn í því að yfirleitt eru þeir ekki holir. Þeir eru byggðir úr stórum steinblokkum með rauðleitum hraunhellum og í þeim svartar grjótnibbur, sem héldu gipslaginu, sem sett var utan á þá. Venjulega eru nokkrir stallar á þeim, sem sennilega hafa verið notaðir við hátíðahöld, og efst var svo skorið ofan af pýramídanum, þannig að pallur myndaðist, sem hofið stóð á. Hér er mynd af sólpýramídanum, hann er hæstur, það er búið að hreinsa utan af honum. Til þess að komast upp er gengið upp 222 þrep. Þegar horft er á eftir fólki upp þrepin, er eins og það sé að hverfa upp í himininn, og þannig hefur það verið með hofprestana að fornu, er þeir gengu upp að hofinu.

Á þessu svæði eru margir pýramídar og hof. Hofin eru með úthöggnum skrímslamyndum, þær eru ógnþrungnar, en handbragðið á þeim er ákaflega fínt, og þegar hugsað er til þess, að þetta var allt unnið með ófullkomnum steinverkfærum, get ég ekki annað en hneigt mig. Það, sem hreif mig mest í þessum pýramídaleiðöngrum, er snilli listamannanna, — þó að þeir hafi ef til vill ekki verið kallaðir það, —hve allt er stílhreint og efnið nýtur sínvel.

Þarna er náma fyrir fornleifafræðinga, því að enn þá er svo mikið órannsakað, þeir eru ekki einu sinni búnir að leysa gátuna um, hverjir reistu pýramídana, hvaðan þeir komu né hvert þeir fóru, Aztekar kölluðu þá Tolteka, sem merkir „miklir listamenn.“

Listiðnaðurinn í Mexíkó stendur á mjög háu stigi, það er engum ofsögum sagt af því, vefnaður, silfursmíði, leirmunagerð, útskurður, leðuriðja, útsaumur, hattagerð, hljóðfærasmíði, allt er þetta mjög framarlega. Það sem einkennir listiðnað þeirra, er, að þeir nota gömul mynstur, þau eru stílhrein, og okkur finnst þau jafnvel nýtízkuleg.

Þessar nælur keypti ég handa konunni minni — segir Benedikt, um leið og hann sýnir mér nokkrar forkunnarfallegar brjóstnálar. — Hér er ein úr silfri, þeir hafa tekið hluta úr pýramídamynd, þessi þrep, og byggt upp mynstrið úr þeim, síðan hafa þeir sett skelplötu á bak við. Hér er önnur með skrímslamyndum, í hana hafa þeir sett gull, messing og steina. Þeir fara afar vel með allt efni, það nýtur sín svo vel. Ég held að arkitektar gætu lært mikið af því í Mexíkó, hvernig farið er að því að láta efni njóta sín.

Hins vegar er margt af því, sem Indíánarnir koma með á markaðina, svona um leið og landbúnaðarafurðirnar, hálfgert rusl og gert af vanefnum. En allir gera eitthvað, það er uppörvandi og mætti halda, að í þessum jarðvegi spryttu margir góðir myndlistarmenn, ef þeir hefðu efni á að menntast.

Fólkið í landinu er yfirleitt Indíánaættar, en mikið blandað, meirihlutinn hefur þó Indíánasvip og vöxt, ákaflega gott fólk og geðugt.

Við fyrstu sýn gæti ferðamaðurinn haldið, að þarna ríkti feikileg velmegun, framkvæmdirnar eru svo miklar. Vegirnir til dæmis, þeir mega vera stoltir af þeim, þeir eru allir steyptir og vel byggðir, halli á beygjum til þess að minnka slysahættu. Ég var stundum að velta fyrir mér, — skyldi ekki koma ómalbikaður kafli? En hann kom aldrei, ég sá einu sinni holu, en þar voru lika viðgerðarmenn að gera við hana. Fátæktin sums staðar þarna í Mexíkó er þó voðaleg. Mig hryllir við tilhugsunina um, að fólk skuli búa svona eins og þarna. Fyrir utan Mexíkóborg eru ægilegustu fátækrahverfi, sem ég hef augum litið, og hef ég þó séð þau slæm til dæmis i Marokkó. Ef þarna kæmi frost, skil ég ekki annað en fólkið frysi í hel, og í rigningu fer allt á flot í moldarkofunum. Mig langar alltaf til að safna liði gegn fátæktinni þegar ég sé svona lagað, en það þýðir vist lítið. Þó sá ég aldrei þarna grindhorað fólk, það var brúnt, nóg er sólln, og hefur áreiðanlega eitthvað að borða. Ég held að fátæktin sé alvarlegasta vandamál, sem Mexíkanar eiga við að stríða. Þeir reka mikinn áróður fyrir lestarnámi og kennslu, víða voru stór auglýsingarspjöld í þeim tilgangi, alltaf mjög vel gerð.

— Hvað geturðu sagt mér um málaralist í Mexíkó?

— Já, ekki má gleyma málaralistinni. Þarna eru margir sýningarsalir, þeir eiga nokkra stóra karla eins og Orozco, Rivera, Siqueiros, Gorman og fleiri. Einnig eru nokkrir útlendir málarar, sem hafa fengið ríkisborgararétt og þeir telja til sinna málara. Myndir þessara eldri meistara eru stórkostlegar, en þeir yngri — við stöndum þeim held ég lítið að baki.Það er gaman að sjá, hvað þeir mála mikið af myndum á opinberar byggingar, banka, spítala, skóla, allt þakið myndum utan og innan. Oft eru þetta hrífandi verk, þó að stundum fyndist mér þau ef til vill óþarflega stór, en það verður að taka tillit til þess, að þeir eru að mála fyrir þá sem geta ekki lesið og endurvekja gamla, áður lítilsvirta, list. Þeir láta sig heldur ekki muna um að mála geysistórar myndir á léreft, allt að níu metra langar og sex til sjö metra háar. Það er ekki fyrir einstaklinga að kaupa þessar myndir.

Yngri mennirnir hafa gert uppreisn, smækkað myndirnar og útilokað söguna úr þeim og gert almenningi kleift að kaupa þær.

Í Mexíkóborg sá ég útisýningar. Í garði einum í miðborginni var málverkasýning á hverjum sunnudegi. Þar komu listamennirnir með myndir-sínar og röðuðu þeim upp og héldu sig svo sjálfir einhvers staðar í nágrenninu. Þarna voru málverk, teikningar og svartlist, mörg hundruð myndir. Yfirleitt voru þessi verk heldur léleg, enda mest áhugamenn, en það er alltaf gaman að sjá svona sýningar, og það leyndust lika verulega góðir hlutir innan um.

Markaðarnir eru geysilega skemmtilegir, þar er ýmiss konar matur á boðstólum baunir, kál og sósur Í mörgum döllum, kaktusar, sneiddir og soðnir, og borðaðir eins og pönnukökur. Það var hægt að sjá mikið af skemmtilegum mótívum þarna á mörkuðunum. Ég gerði nokkrar skissur og tók myndir, en tíminn var enginn til að mála. Þarna sá ég til dæmis gamla konu með lifandi hænsnakippur í höndunum, og gangandi kjötskrokka, þá höfðu karlarnir slengt skrokkunum á herðar sér, svo að ekkert sást nema fæturnir niður undan, og konur og börn innan um grænmeti voru oft efni í fallegar myndir. Og leirmunamarkaðurinn, fagurlega löguð ker og litirnir I þeim, þetta gaf mér innblástur, þó að ég vinni það ef til vill ekki svona fígúratívt.

Ég má ekki gleyma að segja þér frá Kristsbúðunum. Kringum eitt aðaltorgið í Mexíkóborg er fjöldi búða, þar sem seldar eru kristilegar vörur, men, festar, nælur, armbönd og ýmsir hlutir með dýrlinga og helgimyndum og Kriststyttum af öllum stærðum og gerðum. Stundum voru allt að tuttugu Kriststyttur á einni hillu, þær minnstu voru nokkurra sentimetra háar og þær stærstu um tveir metrar. Verðið fór eftir stærð, Kristur, sem var einn og fimmtíu á hæð, var til dæmis töluvert dýrari en Kristur, sem var ekki nema einn og fjörutíu. Ég gæti trúað, að ég hafi séð sex til sjö hundruð stórar Kriststyttur á einum degi. Frekar fannst mér þessar styttur óhugnanlegar og lítil listaverk.

Hér er mynd af kirkju hinnar heilögu meyjar frá Guadeloupe, verndara borgarinnar og landsins. Það er heilmikil saga á bak við kirkjuna. Hún er eitthvað á þá leið, að fátækur Indíáni fékk vitrun og heyrði raddir. Hann fór til biskupsins og.sagði honum, að mærin vildi láta reisa kirkju, en honum var ekki trúað Þá gerðist kraftaverk, og mynd meyjarinnar birtist á skikkju Indíánans. Var þá hafizt handa við að reisa kirkjuna. Þessi kirkja er nú aðalpílagrímastaður landsins. Fólkið skríður yfir götuna og torgið fyrir framan og inn kirkjuna, þar sem það ákallar hina heilögu mey. Engir forvitnir ferðamenn geta truflað það við bænaiðkanir sínar. Þarna inni sá ég fjölda af litlum marmaratöflum, sem á voru letraðar þakkir til hinnar heilögu meyjar fyrir ýmislegt, foreldrar að þakka fyrir börn sín, börn fyrir foreldra og fólk fyrir ýmis gæði, sem það hafði öðlazt með aðstoð meyjarinnar.

Víða eru spænsk áhrif ennþá sýnileg. Hér á ég mynd af fjallaþorpi, þar sem ég kom. Það er friðað, má engu breyta, þar er allt í spænskum nýlendustíl. Þetta þorp er í grennd við mestu silfurnámur landsins og þar er silfurbúð í næstum því hverju húsi. Alls staðar í þorpunum eru þessar þröngu götur og fólk situr úti að selja, oft eru sólskýli strengd yfir göturnar.

Ég hlakka til að fara að vinna úr þeim margvíslegu áhrifum, sem ég fékk, það er meira en málverkin ein, sem hrífa hugann, það er nýtt fjölbreytilegt þjóðlíf og umhverfi.

Ferð um Mexíkó er eins og stórkostleg kennslustund sögu, þar eru það gömul afrek, sem mesta aðdáun vekja. Hinn geysilegi stórhugur,mér fannst hann magna mig upp og hlaða míg einhverri ákafri orku, og þegar ég kom heim, gat ég varla sofið fyrir hugsuninni. — Nú mála ég stóra mynd.

— Ertu byrjaður?

— Nei, ekki ennþá, en ég fer að byrja.

— Er langt síðan þú byrjaðir að mála?

— Það er orðið nokkuð langt, tuttugu ár, ég var svo ungur, þegar ég byrjaði í Myndlista- og handíðaskólanum. Heima máluðu bræður mínir, tveir þeirra urðu húsamálarar og mála stundum ennþá, þeir kveiktu í okkur Veturliða, og við fórum að læra og fylgdumst lengi að. Ég hallaðist fyrr að þessu abstrakta, þó að ég sé nú ef til vill að kenna annað, ég hef kennt við Handíðaskólann í sex ár. Ég var í listaháskólanum í Kaupmannahöfn og fleiri skólum þar, í Frakklandi var ég við nám hálft þriðja ár og fór í námsferðir víða, meðal annars til Spánar, svo að spænsk menningaráhrif eru ekki ný. Lengst komst ég austur til Rússlands til Moskvu og kynntist rússneskri kirkjulist, og einnig kynntist ég norrænni list.

— Hefurðu haldið margar sýningar á þessum tuttugu árum?

— Við byrjuðum tveir strákar saman með sýningu hér heima 1951. Fyrsta einkasýningin mín var hins vegar í Frakklandi 1953, það var stór sýning og fékk sæmilega dóma. Ári seinna sýndi ég hér í skálanum og aftur 1961. Síðast hélt ég sýningu í vetur í Bogasalnum. Samsýningum hef ég tekið þátt í út um hvippinn og hvappinn.

Ég vil halda því fram að fyrir myndlistarmann séu kynni af myndlist og menningu annarra þjóða nauðsynleg hvatning og uppörvun til að vanda sig. Síðan er það prófsteinn á listamanninn, hvort hann getur notfært sér áhrifin, sumir geta það ekki, verða aðeins fróðari um löndin og sögu þeirra, en fá ekki áhrifin fram í myndum sínum Það er allt annað að sjá hlutina með eigin augum en skoða myndir eða lesa sér til.

Á ferð eins og minni leggur hver og einn áherzlu á að skoða það sem honum stendur næst og eftir þessa stuttu ferð gæti ég ekki sagt neitt um olíulindir né fjárhagsmál. Þetta gerir ekki annað en æsa upp sultinn, löngunina til að fara aftur og skoða meir. En að loknu ferðalagi mínu get ég sagt, að ég held, að Íslendingar þurfi ekki að skammast sín fyrir myndlist sína í samanburði við verk samtímamanna i Mexíkó og Bandaríkjunum. Þvert á móti stöndum við vel að vígi, ungir íslenzkir myndlistarmenn kunna yfirleitt meira og hafa áreiðanlega hlotið betri menntun en flestir ungir málarar þar.

Kristín.

Það eru þrjátíu og fimm olíumálverk á sýningunni. Svo er ég hér með dálítið sem ég hef ekki haft uppi áður. Fotogram kalla menn þetta — myndir sem verða til við leik að framköllunartækjum og ljósmyndapappír. En ég vil heldur kalla þetta gríngrafík og ég hef nefnt myndirnar eftir því. Þetta gæti til dæmis verið Dans póstmeistarans. Og þessi heitir víst Draumur bréfberans.

— Ég sýndi fyrst í Frakklandi árið 1953, en hér heima hef ég haldið fjórar sjálfstæðar sýningar. Og ég hef tekið þátt í ýmsum samsýningum bæði hér og ytra — í Róm, á Ítalíu, í Finnlandi, í Moskvu (ekki hafa margir íslenzkir abstraktmálarar lagt þangað leið sína). Síðast hefur það af mér frést, að ég gerði fjórar gluggamyndir í Hótel Holt.

— Finnst þér þú mála öðruvísi en þegar þú hélzt síðast sýningu hér?

— Já, það var 1961 og mér finnst ég hafi töluvert breyst síðan. Þar voru að vísu myndir frá sjö árum. En í þeim myndum, sem þá voru yngstar, finnst mér örla fyrir því, sem nú er orðinn veruleiki. En þær myndir voru stærri yfirleitt í sniðum, í þeim var meiri spekúlasjón ef svo mætti segja, þær voru bundnari. Litir í þeim voru líkir þessum en einhæfari, það bar mest á fantasíum í rauðu og bláu.

Og ef við tölum meira um myndirnar sjálfar: mér finnst að viðhorfin séu svipuð þeim, sem komu fram hjá bróður mínum, Veturliða á nýafstaðinni sýningu hans. Náttúran er myndunum baksvið, undirtónn, sem ég reyni síðan að þróa upp í abstraktsjónir, sem tilheyra mér einum og engum öðrum. Það mætti kalla myndirnar fantasíur um land. Ég hef gert skissu hér og þar um landið þegar ég hef verið á ferð — í Hveradölum, í Landmannalaugur. En það hefur aldrei hvarflað að mér að vinna þannig að úr yrði staðbundin landslagsmynd. Myndin verður ekki bundin einhverjum ákveðnum punkti heldur stóru svæði, litum þess og formum, geymir endurminningar um einhverja ferð, þjappar saman heildaráhrifum.

— Þetta er í fyrsta sinn að ég sýni í Bogasal og satt að segja er ég óvanur honum. Nú verð ég að henda út fimmtán myndum, sem hér komast ekki fyrir og svo teikningum. Ég hef því í rauninni aðra sýningu tilbúna nú þegar. En maður á ekki að sýna oft.

— Hvað tekur þú þér næst fyrir hendur?

— Ég fer bráðum utan, fékk styrk frá Menntamálaráði til að fara til Mexíkó. En ég man það var mikill viðburður að sjá þá stóru mexíkönsku farandssýningu sem kom til Parísar 1953. Maður varð þá fljótlega var við áhrif frá henni og svo annarri heimsókn úr fjarlægu heimshorni — kínversku óperunni. Hvorttveggja hleypti nýju blóði í marga menn í ýmsum löndum.

Previous
Previous

1965: Stutt viðtal við Benedikt Gunnarsson

Next
Next

1973: Sólin í klakanum og trúin á það bezta