Stutt spjall við Benedikt Gunnarsson
Þjóðviljinn, 14. mars 1965.
Þegar við litum inn í Bogasal á föstudag var Benedikt Gunnarsson og tveir menn aðrir önnum kafnir við að festa upp þá sýningu, sem hann opnaði þar í gær. Því miður var myndaskráin ekki tilbúin enn, sem var náttúrulega afleitt fyrir blaðamann — hvaðan hefur hann vizku um myndlist ef ekki úr sýningarskrám?
— Gefur þú þessum myndum skáldleg nöfn Benedikt? Og verða nöfnin til á undan eða eftir myndunum?
— Nei, ætli við reynum ekki að forðast skáldlegheitin. Ég kemst venjulega af með eitt orð. Kannski „Land“. Eða „Hamrar“. Þú sérð, að þetta eru abstraktsjónir, en það er alltaf unnið út frá einhverju. Tilefni þessarar myndar hér í horninu var til að mynda hamraveggur litskrúðugur — hér er hann tættur í sundur, einhverju þungbúnu teflt fram gegn léttleika og reynt að forðast eyður, sem dræpu niður allt myndrænt samhengi. Eða þessi þarna, segir Benedikt og bendir á stóra mynd í allsterkum litum sem skal hengjast upp fyrir miðjum bogveggnum. — Fyrst var hún tengd hugmynd um langt borð, þ.e. venjuleg kyrralífsmynd, sem síðan þróast upp í abstraktsjón. Hún heitir nú „Við langborð“ en það mætti kannski kalla hana „Eftir svallið“, því bersýnilega hefur sitthvað gengið á á þessu borði.
Benedikt við uppsetningu málverkasýningar í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1965. Mynd úr Alþýðublaðinu.
Það eru þrjátíu og fimm olíumálverk á sýningunni. Svo er ég hér með dálítið sem ég hef ekki haft uppi áður. Fotogram kalla menn þetta — myndir sem verða til við leik að framköllunartækjum og ljósmyndapappír. En ég vil heldur kalla þetta gríngrafík og ég hef nefnt myndirnar eftir því. Þetta gæti til dæmis verið Dans póstmeistarans. Og þessi heitir víst Draumur bréfberans.
— Ég sýndi fyrst í Frakklandi árið 1953, en hér heima hef ég haldið fjórar sjálfstæðar sýningar. Og ég hef tekið þátt í ýmsum samsýningum bæði hér og ytra — í Róm, á Ítalíu, í Finnlandi, í Moskvu (ekki hafa margir íslenzkir abstraktmálarar lagt þangað leið sína). Síðast hefur það af mér frést, að ég gerði fjórar gluggamyndir í Hótel Holt.
— Finnst þér þú mála öðruvísi en þegar þú hélzt síðast sýningu hér?
— Já, það var 1961 og mér finnst ég hafi töluvert breyst síðan. Þar voru að vísu myndir frá sjö árum. En í þeim myndum, sem þá voru yngstar, finnst mér örla fyrir því, sem nú er orðinn veruleiki. En þær myndir voru stærri yfirleitt í sniðum, í þeim var meiri spekúlasjón ef svo mætti segja, þær voru bundnari. Litir í þeim voru líkir þessum en einhæfari, það bar mest á fantasíum í rauðu og bláu.
Og ef við tölum meira um myndirnar sjálfar: mér finnst að viðhorfin séu svipuð þeim, sem komu fram hjá bróður mínum, Veturliða á nýafstaðinni sýningu hans. Náttúran er myndunum baksvið, undirtónn, sem ég reyni síðan að þróa upp í abstraktsjónir, sem tilheyra mér einum og engum öðrum. Það mætti kalla myndirnar fantasíur um land. Ég hef gert skissu hér og þar um landið þegar ég hef verið á ferð — í Hveradölum, í Landmannalaugur. En það hefur aldrei hvarflað að mér að vinna þannig að úr yrði staðbundin landslagsmynd. Myndin verður ekki bundin einhverjum ákveðnum punkti heldur stóru svæði, litum þess og formum, geymir endurminningar um einhverja ferð, þjappar saman heildaráhrifum.
— Þetta er í fyrsta sinn að ég sýni í Bogasal og satt að segja er ég óvanur honum. Nú verð ég að henda út fimmtán myndum, sem hér komast ekki fyrir og svo teikningum. Ég hef því í rauninni aðra sýningu tilbúna nú þegar. En maður á ekki að sýna oft.
— Hvað tekur þú þér næst fyrir hendur?
— Ég fer bráðum utan, fékk styrk frá Menntamálaráði til að fara til Mexíkó. En ég man það var mikill viðburður að sjá þá stóru mexíkönsku farandssýningu sem kom til Parísar 1953. Maður varð þá fljótlega var við áhrif frá henni og svo annarri heimsókn úr fjarlægu heimshorni — kínversku óperunni. Hvorttveggja hleypti nýju blóði í marga menn í ýmsum löndum.