Tíminn - 213. tölublað (25.09.1957)_1.jpg

Talað við Benedikt

„Það verður að skrifa mörg bílhlöss af analýsum á kúnstinni og sturta því yfir almenning, til þess að hann skilji“

Tíminn, 25. september 1957.

Þegar fréttamaður blaðsins gekk heim að gula bakhúsinu við Laufásveg, sat Benedikt Gunnarsson við dyrnar hjá sér og var að ljúka við að raka sig. — Ég nota sólina fyrir raksápu, sagði Benedikt.

Athygli mín beinist að stóru málverki, sem þekur heilan veggflöt framan við dyrnar.

— Þetta er Hörpusilki. Ég er eiginlega að prófa ljósþolið.

Við göngum í bæinn; komum okkur fyrir í herbergi, sem er allt í senn: vinnustofa, svefnherbergi og geymsla. Málverk, ljósmyndir og skissur hanga á veggjunum og frammi við gluggann er stór bóka hilla. Ofan á henni stendur kínverskur guð úr jaðe, grettinn og háðslegur.

— Ég er að sprengja plássið. Á myndir í geymslu á þremur stöðum í bænum, allt hjá kunningjum. Og þriggja ára gamla lóðarumsókn fyrir vinnustofu og íbúð.

— Myndirnar? í kössum!

Ofan við bókahilluna hanga nokkrar myndir málaðar á gagnsætt efni.

— Þetta eru skissur að glermyndunum, sem héngu í sýningarsalnum, málað á filmur.

Benedikt dregur kassa undan borðinu, glermyndir. Sumar eru málaðar á hamrað gler, sem gefur einkennilega brotna áferð. Hann leggur saman tvær myndir og bregður þeim upp að glugganum. Þrívídd.

— Þetta er hernaðarleyndarmál. Þú mátt ekki lýsa þessu nákvæmlega. Meiningin er að hengja myndirnar í glugga, eina eða fleiri saman. Litirnir? Það eru sérstakir gagnsæir litir, keyptir í Frakklandi. Efnafræðingarnir hérna könnuðust ekki við formúluna.

Benedikt er fyrsti málarinn hér á landi, sem vinnur á gler og gengur sjálfur frá myndunum. Aðrir listamenn hafa gert skissur að slíkum myndum og látið ganga frá þeim í verksmiðjum. En Benedikt tekur fleiri efni til meðferðar. Ofan við dívaninn, sem við sitjum á, hangir eins konar veggteppi úr balsalitum.

— Balsalistana? Ég límdi þá á myndir og skipti flötum. Og festi þá í blómapotta og notaði þá í móbílur. Efnið er létt og sveigjanlegt; það er eins og að halda á línunni.

— Hvað segirðu þá um plastþeytuna?

Ég mála á hana. Hýn hefur vissa effekta. Annars er allt á tilraunastigi.

— Og rakvélablöðin?

— Já, það má nota þau í myndir. Annars hef ég verið að vinna aluminium upp á síðkastið og líka málað á sandpappír, þéttgrunnað kork og silki.

Mörg af þessum efnum hafa til þessa verið óþekkt í höndum listamanna, en Benedikt tekur þau hvert af öðru til meðferðar og gerir úr þeim merkilega hluti. Nokkrar málmmyndir standa á bókahillunni við hliðina á Kínverjanum.

— Þetta eru smámyndir og skissur. Lítið húsnæði leiðir af sér litlar myndir.

— Segðu mér eitthvað um tjáninguna, hugmyndina...

— Tjáningin, það er þörfin. Hún er í manninum, innan í honum. Áhrifin frá umhverfinu notar hann svo til að túlka hana og gera hana sýnilega. Hugmyndirnar koma út úr myrkrinu. Þær birtast í höfði listamannsins og í höndum hans verða þær að veruleika.

— Hvað um viðhorfið hjá almenningi?

— Fólk er ennþá að hrista hausinn yfir abstraktmyndunum. Það verður að skrifa mörg bílhlöss af analýsum á kúnstinni og sturta því yfir almenning, til þess að hann skilji.

— Og hvenær megum við svo búast við sýningu?

— Gæti verið möguleiki að sýna í vetur, ef eitthvað rýmkast um. Sennilega um áramótin.

Benedikt er nýkominn úr Rússlandsferð. Hann setti upp málverkin á íslenzku sýningunni á heimsmótinu í Moskvu, og nú er tækifærið að spyrja hann um listina austan tjalds.

— Hvað sögðu þeir um íslenzku sýningardeildina, Rússarnir?

— Gagnrýnandinn, sem ég talaði við, sagði að íslenzka sýningin væri óskiljanleg, takmörkuð og ófrjó. Hefði enga þýðingu fyrir fjöldann. Listin væri uppeldismeðal í Rússlandi, þáttur í skipulaginu.

— Og hvað um listamenn þar eystra, hverju hafa þeir afrekað?

— Þetta er fremur leiksviðslist og heróismi en málaralist í venjulegum skilningi. Ég sagði manninum, að mér fyndist þeirra list vera ófrjó; að listamennirnir sýndu alltof sterka viðleitni til að vera vinsælir á kostnað listarinnar og hefðu yfirleitt ekki fylgzt með tímanum á þessari öld.

— Og hvað sagði maðurinn?

— Hann virtist ekki skilja mig. Ég sagði honum, að ég vildi heldur búa við fjárhagslegt öryggisleysi og vera list minni trúr, heldur en vera vinsæll af fólki, sem bæri lítið sem ekkert skyn á góða list – og það skildi hann ekki.

— Virtist þér, að listamenn stæðu undir pólitískri þvingun?

— Aðferðin er meiri þvingun en efnisvalið. Augu gagnrýnenda beinast að vinnuaðferðinni. Afturhaldssamir prófessorar hafa komizt að við akademíurnar. Nýjungarnar virðast fara í taugarnar á þeim og listamenn í Rússlandi standa nú eldri meisturum langt að baki.

— Örlar þá ekki á neinum breytingum?

— Að vísu. Ég sá nokkrar symbólískar myndir, sem skáru sig úr í túlkun og á fundi listamanna sem haldinn var með fulltrúum frá 34 þjóðum, komu fram mismunandi sjónarmið. „Sósíal-realisminn“ var gagnrýndur og meðal annars af Rússum sjálfum. Yfirleitt fannst mér, að marga listamennina langaði til að rífa sig upp og breyta til.

— Hvað er þá hægt að læra af Rússanum?

— Ýmislegt. Þeir eru vel að sér í auglýsingalist og gera snjallar áróðursmyndir.

— Er það allt og sumt?

— Þeir búa vel að listamönnum og almenningur er hvattur til að skoða söfn og sækja sýningar. Söfnin eru opin eftir vinnutíma og heimsóknir almennings skipulagðar á vinnustöðum.

— Allt skipulagt?

— Allt skipulagt.

— Var nokkuð birt um álit erlendra listamanna á rússneskri málaralist?

— Gagnrýnendur höfðu ekkert birt, þegar við fórum, en sögðu að það væri í undirbúningi. Mér þætti gaman að vita hvað þeir hafa eftir mér.

Ég kveð Benedikt, fjölhæfasta listamanninn, sem nú er á Íslandi.

— Og sýningin í vetur?

— Hún er í deiglunni.

B.Ó.

Previous
Previous

1954: Þar sem eftirlíkingu náttúrufyrirbæra líkur upphefst hin sanna list.

Next
Next

1959: „Höfðum náttúruna fyrir kirkju“