Benedikt Gunnarsson62114.jpg

„Höfðum náttúruna fyrir kirkju“

Brúðkaup háð á Lögbergi hinu forna.

Morgunblaðið, 18. ágúst 1959.

Brúðkaup Ásdísar Óskarsdóttur og Benedikts Gunnarssonar undir heiðum himni á Þingvöllum þótti afar nýstárlegt vakti mikla athygli fjölmiðla. Fjallað var um athöfnina í dagblaðinu Íslendingi, á forsíðu Dags og á baksíðu Morgunblaðsins. Þá var brúðarsöngurinn spilaður á RÚV við byrjun athafnarinnar kl. 12:00, brúðhjónunum til heiðurs. Athöfnin var sögð sú fyrsta á hinum fornhelga stað síðan í fornum sið.

Benedikt Gunnarson árið 1954.

Það er ekki á hverjum degi, sem hjón eru vígð saman úti í guðsgrænni náttúrunni, en sá sjaldgæfi atburður gerðist þó á sunnudaginn var. Fór athöfnin fram á Þingvöllum, nánar tiltekið á spönginni milli Nikulásargjár og Flosagjár, sem af sumum er nefnd Lögberg hið forna.

Brúðhjónin, sem vígðust hvort öðru þarna, voru Ásdís Óskarsdóttir (Jónssonar, alþm.) og Benedikt Gunnarsson, listmálari. Séra Rögnvaldur Finnbogason gaf þau saman. Athöfnin fór fram kl. 12 á hádegi og á eftir var snæddur hádegisverður í Hótel Valhöll.

Í gær náðum vér snöggvast tali af brúðhjónunum og spurðum, hvers vegna þau hefðu valið þennan stað til að láta gefa sig saman.

— Okkur fannst þetta fallegur staður, og svo langaði okkur líka að breyta til, sagði brúðguminn. Við höfðum verið þarna í útilegu og okkur fannst tilvalið að hafa náttúruna fyrir kirkju. Gamall maður, sem er uppalinn á Þingvöllum, fræddi mig á því, að þarna á spönginni milli Nikulásargjár og Flosagjár, væri hið gamla Lögberg og presturinn tók strax vel í það þegar ég hóf máls á því við hann, að gifta okkur þarna. Hann hafði hempu með sér, sem hann steypti yfir sig á staðnum og athöfnin fór fram á Flosahæð, sem er hæsti staður þarna á spönginni. Þarna hafði maður útsýn yfir allan fjallahringinn. Það var ekkert sungið, en dropar, sem féllu niður af klettunum sköpuðu tónlist og spóinn vall.

— Var ekki margt áhorfenda þarna í kring?

— Það voru nokkrir, sem horfðu á þetta, bæði fólk, sem var í berjamó og eins fólk í bílum, sem renndi hjá. Ég held að það hafi ekki vitað vel hvað þarna var verið að gera.

— Ég hefði ekki getað hugsað mér, að það væri skemmtilegra að gifta mig annars staðar, segir brúðurin, þegar við beinum spurningu til hennar. — Mér fannst þetta mjög ánægjulegt og það ríkti mjög góð stemning í brúðkaupinu.

Previous
Previous

1957: „Ég nota sólina fyrir raksápu“

Next
Next

1965: Stutt viðtal við Benedikt Gunnarsson