Morgunblaðið - Morgunblaðið B - Sunnudagur (03.07.1994)_a.jpg

Óður til almættisins

Morgunblaðið, 3. júlí 1994

Texti: Orri Páll Ormarsson

Myndir: Kristinn Ingvarsson

Hús Guðs setja sterkan svip á hinn kristna heim. Fáir eru jafn stoltir af Guðshúsinu sínu um þessar mundir og íbúar Miklaholtshrepps á Snæfellsnesi. Um tæplega sextíu ára skeið hafa þeir komið saman á Fáskrúðarbakka til að votta Guði virðingu sína. Tönn tímans hafði unnið nokkuð á kirkjunni og var því nýlega ráðist í miklar framkvæmdir til að hressa upp á útlitið. Einvalalið var fengið til verksins og árangurinn lét ekki á sér standa. Vel var til verksins vandað í hvívetna og vinnubrögð allra sem hlut áttu að máli til eftirbreytni. Á engan er þó hallað þótt fullyrt sé að steindir gluggar sem komið var fyrir í kirkjunni hafi vakið mesta athygli.

Óður til almættisins

Steindu gluggarnir í Fáskrúðarbakkakirkju eru sérstakir fyrir margra hluta sakir. Þeir bera þess glögglega merki að vera sköpunarverk listamanns sem lagt hefur sál sína í verkið. Þá eru þeir hinir fyrstu sinnar tegundar sem unnir eru alfarið á listiðnaðarverkstæði hér á landi. Síðast en ekki síst voru það tvær systur á níræðisaldri sem alfarið stóðu straum af kostnaði. Haustið 1992 lá fyrir ákvörðun systranna Ingveldar og Ástu Láru Jóhannsdætra frá Litlu-Þúfu um að láta fé af hendi rakna til að koma mætti upp steindum gluggum í Fáskrúðarbakkakirkju í Miklaholtshreppi. Tilgangur systranna var að heiðra minningu foreldra sinna og bræðra. Í framhaldinu kom sera Hreinn Hákonarson, þáverandi sóknarprestur í Miklaholtshreppi, að máli við Benedikt Gunnarsson, myndlistarmann, og bað hann að gera tillögu. Tók sá síðarnefndi beiðninni vel og ákvað að verða við henni. Þegar hér er komið sögu var Benedikt á leið til Parísar, þar sem hann hugðist sinna list sinni í Kjarvalsstofu við Signubakka um tveggja mánaða skeið. Hann lét sig ekki muna um að bæta jafn metnaðarfullu verkefni við þau járn sem hann hafði í eldinum. „Mér líður vel í París, þar er gott að vinna“, segir listamaðurinn og kveðst þegar hafa sett mestan þunga í þá erfiðu hugmyndavinnu sem fylgir kirkjulist sem þessari. Hann segist þó ekki hafa átt í vandræðum með að sameina hana þeim verkefnum sem hann fékkst við samhliða. Benedikt telur fáa staði ef nokkra betur til þess fallna að sinna kirkjulist en hjarta Parísar. Þar sé listamaðurinn í svo nánum tengslum við hina listrænu sköpun. Stórfenglegustu listasöfn þjóðarinnar séu á næstu grösum, auk þess sem kirkjur, þar á meðal kirkja vorrar frúar, spegli hámenningu kynslóðanna og veiti ótakmarkaðan innblástur. Benedikt ber mikla lotningu fyrir franskri list og þá ekki síst kirkjulegri. Hann telur mikils virði að íslenskir listamenn skuli hafa aðgang að samastað á borð við Kjarvalsstofu til að sinna skapandi verkefnum í örvandi umhverfi. Hann kann því þeim íslensku aðilum sem veitt hafa þessu brautargengi bestu þakkir.

Frelsið dýrmætt

Aðstæður voru kjörnar og Benedikt kveðst hafa unnið stíft. Hugmyndir kviknuðu ört og innan tíðar var hin myndskipunarlega fæðing jafnframt að baki. „Sóknarnefndin lagði engar kvaðir á mig varðandi efnisval og stílmótun tillagna. Ég var frjáls í leit minni, allri hugmyndavinnu og fagurfræðilegri afstöðu“, segir Benedikt og telur slíkt frelsi listamanna í flestum tilfellum reynast best við Iistsköpunarstörf. Í ársbyrjun 1993 voru tillögur Benedikts síðan lagðar fram í einföldu kirkjulíkani. Þær voru samþykktar af sóknarpresti og sóknarnefnd ásamt Ingveldi Jóhannsdóttur.

Benedikt bar því tillögurnar undir franska og þýska starfsbræður sína og gerði þýskt stórfyrirtæki á sviði glermyndavinnu og mósaíkmyndagerðar verðtilboð í fullvinnslu glugganna. Benedikt hafði áður unnið verk fyrir Háteigskirkju í samvinnu við þetta fyrirtæki. Sú staðreynd að tvær aldraðar konur hefðu upp á sitt eindæmi ákveðið að færa kirkju slíka gjöf var alfarið á skjön við heimsmynd Þjóðverjanna. Þeir voru djúpt snortnir og tóku því tillit til þessara sérstöku aðstæðna þegar þeir buðu í verkið. Engu að síður þótti ekki fært að samþykkja tilboð þeirra af fjárhagsástæðum. Nú voru góð ráð dýr. Að öllu óbreyttu leit út fyrir að verkið yrði ekki unnið í bráð. Systurnar sem veittu fjármagnið eru sem kunnugt er nokkuð komnar til ára sinna og því þótti öllum hlutaðeigandi brýnt að framkvæmdum yrði hraðað svo þær fengju notið afrakstursins. Benedikt kaus því að gefa félaga sína í Þýskalandi upp á bátinn og róa á önnur mið.

Birti yfir Miklaholtshreppi

Við komuna til landsins hugkvæmdist honum að leita til hjónanna Kristínar Guðmundsdóttur og Yngva Högnasonar í Listgleri í Kópavogi. Þeim bauð listamaðurinn að gera tilboð í verkið. Það tilboð var á þeim nótum að „það birti yfir Miklaholtshreppi og sól vermdi sál og vanga Ingveldar,“ eins og Benedikt kemst að orði. Öll ljón höfðu nú hrökklast úr vegi og seinni hluti myndgerðarinnar, fullvinnslan, gat hafist.

Um sumarið ferðuðust hjónin í Listgleri um Þýskaland og nýttu tækifærið til að skoða gler. Afar vandað gler var valið til verksins. „Þetta er toppurinn í þessu,“ segir Yngvi og bendir á að gler þetta bjóði upp á sérstaklega skemmtilegt Ijósbrot. „Það á að duga lengur en húsin sem það prýðir,“ bætir Kristín við. Yngvi segir að um nákvæmlega sama hráefni sé að ræða og Þjóðverjar hafi notað í verk af þessu tagi.

Í september hófst síðan þessi frumraun í glervinnslu á Íslandi. Ströng, erfið og margflókin tæknivinna var framundan. Benedikt vann náið með hjónunum og vandvirknin var í hávegum höfð. Hjónin segja að vinnslan hafi ekki á neinn hátt verið frábrugðin því sem tíðkast erlendis og gluggarnir því fyllilega sambærilegir við þá glugga sem fluttir hafa verið inn til landsins. „Fólk virðist einfaldlega ekki hafa gert sér grein fyrir því að hægt væri að vinna verk sem þetta hér á landi,“ segir Kristín og sér ekkert því til fyrirstöðu að framhald verði á vinnu af þessu tagi. Ekki síst þar sem það sé mun ódýrara. Hjónin segja mikinn tíma hafa farið í að velja glerið í hvern glugga um sig en eftir á að hyggja hafi þeim tíma verið vel varið. Þau segjast hafa lokið við hvern glugga áður en þau sneru sér að þeim næsta. Á annað hundrað afmarkaðir glerfletir eru í flestum gluggum. Þeir minnstu, svokallaðir glerdropar, eru einungis um einn cm í þvermál.

Þau Kristín og Yngvi hafa rekið Listgler í sextán ár en segjast sjaldan vinna eftir teikningum annarra. Þau bera þó listamanninum vel söguna og segja samstarfið hafa gengið mjög vel. Í heild tók vinnsluferlið tæpa fjóra mánuði og voru rúðurnar fullgerðar laust fyrir jól.

Lýsti upp helgidóminn

Það var Eriendur Halldórsson í Dal, formaður sóknarnefndar, sem bar hitann og þungann af lagfæringu kirkjunnar á Fáskrúðarbakka. Hann sinnti málinu af kostgæfni og ósérhlífni og var uppsetning glugganna þar engin undantekning. Þeim var komið fyrir og var listaverkið vígt við afar eftirminnilega athöfn 23. apríl síðastliðinn. Það þótti vel við hæfi, því umræddur dagur er fæðingardagur bræðra gefendanna, tvíburanna Björns og Kristjáns Jóhannssona frá Litlu-Þúfu.

Benedikt segir þá athöfn meðal eftirminnilegustu stunda lífs síns. Hann segist hafa fundið fyrir svo miklu þakklæti og vinsemd heimamanna í sinn garð. Benedikt segir hina höfðinglegu gjöf systranna hafa lýst upp helgidóminn á þessari stundu, en hún sé jafnframt gjöf til þjóðarinnar í heild. Mikil virðing fyrir kristnum lífsgildum felist í myndgjöfinni og vonar Benedikt að hún verði sem flestum lýsandi fordæmi. „Þær hafa skrifað nöfn sín gullnu letri í íslenska sögu og stuðlað að nýsköpun kirkjulistar á íslandi með hinu einstaka framtaki sínu. Þeim sé þökk og heiður.“

List og trú samofin

Gluggaverkin eru fjórtán og öll sótt í texta Biblíunnar. Öll eiga þau sér sameiginlegan kjarna, Jesú Krist og öll myndhugsunin hverfist um Guð sem skapara alls og að allt sé bundið örlögum sínum í tilvist hans. Í nokkrum myndanna segir Benedikt að stuðst sé við ríkjandi táknmyndafræði kristninnar en vefur spunninn og felldur að persónulegu myndmáli hans sjálfs. Í öðrum sé um nýsköpun myndmáls að ræða. „Myndirnar eru samfelldur óður til almættisins um leið og þær spegla nokkra helstu þætti kristinnar trúar. Hrynjandin í breytilegu birtustigi dags og nætur gefur verkunum síkvikt líf og magnar þá dulúð sem tengist trúarinntaki þeirra. Ljósið er, ásamt inntaki myndanna, líf þeirra, mýkt og styrkur. Andinn birtist í Ijósi þeirra og upphefur efnið í æðra veldi listar og trúar. Ljósið tengir innri og ytri veruleika og hvetur manninn til íhugunar um eðli allrar tilveru og eigin stöðu í veröldinni.“

Benedikt segist alltaf hafa verið trúaður. „List og trú eru samofin í eðli sínu,“ segir hann og bendir á að listasaga sé að miklu leyti athugun á því sem unnið hefur verið fyrir kirkjuna. Hann hefur unnið töluvert fyrir kirkjuna á undanförnum árum og segir trúaráhuga sinn hafa aukist samhliða því. Árið 1992 vann hann altarismynd úr mósaík fyrir Háteigskirkju. Viðfangsefnið var María mey og kveðst Benedikt hafa sökkt sér í lestur Maríufræða meðan á vinnu myndarinnar stóð. Reyndar er altarismynd þessi afar merk. Benedikt telur að María Guðsmóðir sé ekki þungamiðja neinnar annarrar altarismyndar sem sett hefur verið upp í íslenskri mótmælendakirkju frá siðaskiptum. Meðal annarra kirkjuverka Benedikts má nefna steinda glugga sem hann gerði fyrir Keflavíkurkirkju árið 1977 og Hábæjarkirkju í Þykkvabæ 1981. Þá vann hann aðra altarismynd úr mósaík fyrir Háteigskirkju árið 1986. Sé eitthvað að marka áhuga listamannsins og eldmóð á sviði kirkjulistar munu fleiri vafalítið bætast í hópinn áður en langt um líður.

Einstakur stórhugur

Séra Hreinn Hákonarson, fyrrverandi sóknarprestur í Miklaholtshreppi, fylgdist náið með vinnslu listaverksins. „Ég held að allir ljúki upp um það einum munni að vel hafi tekist til,“ segir hann og stolts gætir í röddinni, „það er eitthvað í þessum verkum sem kallar á mann að staldra við.“ Séra Hreinn kveðst vera leikmaður á sviði lista en engu að síður segist hann hafa velt því fyrir sér hvernig kirkjan hafi getað verið eins og hún var fyrir breytinguna. „Benedikt hefur unnið þetta verk af einstakri alúð og mér er til efs að hann hefði lagt sig betur fram þótt um stóra dómkirkju úti í heimi hefði verið að ræða.“ Séra Hreinn segir að gluggarnir komi út eins og predikun líkt og steindir gluggar hafi gert fyrr á öldum. Hann viðurkennir að mikil vinna liggi að baki en tekur fyllilega undir það viðhorf Benedikts að eftir hundrað ár verði ekki spurt hversu langan tíma verkið hafi verið í smíðum, heldur hvernig til hafi tekist.

Séra Hreinn dregur engan dul á það að framlag systranna frá Litlu Þúfu lýsi einstökum stórhug. „Ég efa að nokkurri annarri kirkju hafi verið færð jafn stór gjöf af tveimur einstaklingum.“ Hann dáist að hugprýði systranna því að fljótt hafi komið á daginn að verkið var miklu viðameira en ráð var fyrir gert í fyrstu. Séra Hreinn segir þetta gott dæmi um það hversu miklu einstaklingurinn geti komið í kring ef hugarfarið er rétt.

Benedikt Gunnarsson

Benedikt Gunnarsson er fæddur á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1929. Hann stundaði listnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, málaradeild listaháskólans í Kaupmannahöfn og teikniskóla R.P. Beyesens í Ríkislistasafninu í Kaupmannahöfn. Þá nam hann ennfremur myndlist í París og Madrid. Benedikt lauk myndmenntakennaraprófi frá MHÍ árið 1964. Hann kenndi myndlist við sama skóla frá 1959 til 1968 og hefur kennt við Kennaraháskóla Íslands frá 1965. Benedikt var skipaður lektor í myndlist við KHÍ árið 1977.

Benedikt hefur haldið tuttugu einkasýningar og tekið þátt í 22 samsýningum víða um heim. Málverk eftir hann eru til í Listasafni Íslands og mörgum öðrum listasöfnum víðsvegar um landið. Einnig eru verk eftir hann í eigu fjölmargra íslenskra sveitarfélaga, fyrirtækja, sjúkrahúsa og skóla. Þá eiga margir erlendir málverkasafnarar verk eftir Benedikt.

Benedikt er einn af brautryðjendum „geometriskrar“ abstraktlistar á Íslandi. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu hér á landi árið 1954 og sýndi þar einungis verk í óhlutbundnum stíl. Benedikt hefur lagt mikla rækt við persónuleg vinnubrögð í málaralist. Árið 1961 hélt hann tímamótasýningu á ferlinum. Þrátt fyrir „abstrakt“ myndmál voru ýmis náttúrufyrirbrigði kveikja margra myndanna sem þar voru til sýnis. Þær voru stórar í sniðum og einkenndust annars vegar af þéttum sveiflukenndum formahreyfingum og hins vegar af rólegum en samofnum formheildum. Á sjöunda áratugnum þróaðist myndstíll Benedikts hægt í átt til „abstraktexpressionisma“. Þá fór hann að beita lazur-tækni í málun sem var nánast óþekkt meðal „abstrakt“málara á þeim tíma. Þá varð Benedikt fyrstur til að sýna „photogram“ myndir á opinberri listsýningu.

Frá 1970 hafa viðfangsefni Benedikts orðið fjölbreyttari og persónulegur stíll hans styrkst. Verkin hafa mörg hver orðið hlutbundnari en áður. Myndmálið er þó oftast sveigt undir lögmál skáldskapar og vefur spunninn þar sem kjarni hugmyndar er mótaður í persónulegri myndheild. Benedikt hefur unnið mjög að nýsköpun myndmáls á sviði trúarlegrar listar og sjást hin myndfræðilegu tengsl við kjarna myndlistar hans vel þar.


Stuðluðu að nýsköpun í kirkjulist

Gjöf systranna Ingveldar og Ástu Láru Jóhannsdætra til Fáskrúðarbakkakirkju er afar sérstæð. Hún er rausnarleg og fátítt að einstaklingar kosti jafn viðamikið listaverk upp á eigin spýtur. Sú staðreynd er hins vegar ekki það eina sem veitir gjöfinni sérstöðu. Þótt framlag systranna til kirkjunnar sé mikið er það síst minna til glerlistar á Íslandi. Aldrei fyrr hefur sambærilegt verk verið unnið alfarið á verkstæði hér á landi. Systurnar frá Litlu Þúfu hafa því óvænt en verðskuldað stuðlað að nýsköpun í kirkjulist á Íslandi. Þakklæti lagsmanna listagyðjunnar er því síst minna en klerkastéttarinnar.

Hamingjusöm

Systurnar höfðu lengi fóstrað þá hugmynd að færa Fáskrúðarbakkakirkju gjöf til minningar um foreldra sína og bræður, hjónin Jóhann Sigurð Lárusson bónda á Litlu Þúfu og Kristjönu Björnsdóttur ljósmóður og tvíburana Björn og Kristján. Það var síðan nú á vordögum aðþessi draumur varð að veruleika. Ásta Lára er búsett í Reykjavík en Ingveldur hefur alla tíð búið í Miklaholtshreppi. Hún hefur verið ábúandi á Litlu Þúfu um áratuga skeið og einbúi síðustu þrjú árin. Ingveldur segir það alltaf hafa blundað í henni að bæta útlit kirkjunnar og ljómar öll þegar talið berst að listaverkinu. „Ég er hamingjusöm,“ segir hún og telur það mikil forréttindi að hafa enst aldur til að sjá jafn stórbrotið minnismerki um sína nánustu afhjúpað. Hún ber Benedikt Gunnarsson á höndum sér og kveður vinnu hans hafa tekið hennar björtustu vonum fram. „Það er dásamlegt að fá þetta listaverk í kirkjuna.“ Ingveldur segir að þær hugmyndir sem Benedikt lagði fyrst fram hafi gripið hana strax. „Ég sá að þarna var góð list á ferð.“

Þessi glaðbeitta kona segist alltaf hafa sótt kirkju og kann því prestleysinu sem nú er komið upp í Miklaholtshreppi illa. Eftir að séra Hreinn Hákonarson gerðist fangaprestur tók séra Rögnvaldur Firínbogason á Staðastað við en hann hefur verið í veikindaleyfi upp á síðkastið. „Það er mikil eftirsjá í séra Hreini,“ segir Ingveldur og telur augljóslega minna gagn af glæstu guðshúsi ef enginn er presturinn.

Vill vera heima

Ásta Lára stendur á áttræðu en Ingveldur verður 85 ára þann 11. júlí næstkomandi. Hún er með afburðum ern. Gildir þá einu hvort horft er til sálar eða líkama. Hún segir að eftir að systkini hennar hafi farið að heiman eitt af öðru hafi hún ekki haft hjarta til þess að yfirgefa foreldra sína líka. Það varð því úr að hún varð þeim innan handar við búskapinn á Litlu Þúfu. Þegar kraftar foreldranna þrutu tók Ingveldur síðan alfarið við búinu og hefur stýrt því síðan. Fyrir ríflega þremur áratugum réð hún stúlku í kaupavinnu og sáu þær um búskapinn saman allt þar til fyrir þremur árum að sú síðarnefnda flutti á dvalarheimilið í Borgarnesi. Ingveldur hefur því búið ein á Litlu Þúfu síðan. Hún er hætt búskap en er engu að síður treg til að yfirgefa æskustöðvarnar.

Ingveldur segist oft heimsækja „stúlkuna“ sína á dvalarheimilið og líst alls ekki illa á aðstæður þar. „Það yrði hins vegar skrýtið að setjast þar að,“ segir hún og telur slík heimili fyrst og fremst sniðin að þörfum fólks sem á orðið erfitt um vik að bjarga sér. „Það er leitt að þurfa að sitja og bíða eftir þessu eina,“ segir hún alvarleg í bragði og segist kunna best við sig heima, í það minnsta á meðan hún er rólfær.

Fylgist með mörkunum

Það er eftirminnilegt að sækja Ingveldi heim á Litlu Þúfu. Hún ber aldurinn vel og er augljóslega mjög smekkvís. Hún líður um þessi snaggaralegu húsakynni eins og táningur og stjanar við gesti af stakri alúð. Reyndar segir hún mesta lífsþróttinn vera á bak og burt. Maður kemst því ekki hjá því að hugleiða hvernig hún hafi verið í háttum þegar hún var upp á sitt besta. Heimilið er einkar smekklegt og fullkomlega í stíl við þessa tignarlegu konu. Gamlir munir prýða það að mestu en nýtískulegt sjónvarpstæki stingur í stúf. „Ég horfi töluvert á sjónvarp,“ segir Ingveldur en finnst knattspyrnan full fyrirferðarmikil þessa dagana. Ekki er hún þó gersneydd öllum áhuga því hún kveðst oft kveikja á tækinu undir lok leikjanna í heimsmeistarakeppninni. „Ég hef gaman af því að athuga hvort einhver mörk hafi verið skoruð.“

Previous
Previous

1986: Megi kirkjan nýta sér afl listarinnar

Next
Next

1998: Listin er samgróin lífi og trú mannsins