Rætt við Benedikt Gunnarsson listmálara
um listina, lífið og trúna
Listin er samgróin lífi og trú mannsins
Bjarmi, 5. tölublað 1998
Texti eftir Gunnar J. Gunnarsson
Benedikt Gunnarsson er þjóðkunnur listamaður. Hann hefur jafnframt kennt myndlist við Kennaraháskóla Íslands um langt árabil. Eitt af því sem vekur athygli í list hans eru trúarlegar myndir. Fyrir skömmu opnaði hann sýningu á nokkrum verkum sínum í anddyri Hallgrímskirkju þar sem þáttur trúarinnar er rauði þráðurinn.
Benedikt hefur meðal annars verið beðinn um að gera listaverk í kirkjur. Þekktast slíkra verka er líklega altaristaflan í Háteigskirkju í Reykjavík en hún hefur vakið mikla athygli. Hún er reglulega kynnt með litskyggnum á vegum Nordiskt Kirkeligt Studieråd í grunn- og framhaldsskólum á Norðurlöndum sem dæmi um inntaksríka nýsköpun myndmáls í trúarlegri samtímamyndlist í Evrópu.
Bjarmi náði tali af Benedikt skömmu eftir að sýningin í Hallgrímskirkju var opnuð og ræddi við hann um listina, lífið og trúna.
„Listin verður pá ekki skilin og listaverkin ekki túlkuð nema setja sig inn í trúarheimspekina og þann hugmyndaheim og trúarkenningar sem listaverkin tjá og túlka“.
— Benedikt Gunnarsson
Trúarleg myndlist á sér langa sögu. Benedikt var því fyrst spurður að því hvert samband trúar og listar væri að hans skilningi.
Benedikt Gunnarsson, listmálari, við mósaíkmynd sína í Háteigskirkju.
Ég álít að trúin og listin eigi sér sameiginlegar rætur, þótt rætur trúarinnar séu að sjálfsögðu dýpri. Fagurfræðilegir burðarþættir listsköpunarinnar taka í þessu sambandi mið af inntaki hins trúarlega viðfangsefnis. Inntak verksins hefur síðan áhrif á heildarformgerð þess. Það er auðvitað hægt að nefna margt í þessu sambandi þegar horft er til baka til sögunnar. Samfylgd trúar og listar virðist eiga sér langa sögu.
Ég get nefnt sem dæmi forn hellamálverk á Spáni og í Frakklandi sem eru álitin 12 – 17 þúsund ára gömul. Þar hafa hellamenn teiknað myndir á veggina af veiðidýrum. Álit fræðimanna á þessum myndum er að þarna hafi menn skapað verk sem eru listaverk í okkar skilningi en hafa ef til vill ekki verið það í hugum þeirra sem skópu þau heldur nokkurs konar verkfæri í lífsbaráttunni. Þeir hafi gert myndir af veiðidýrunum, síðan kyrjað fyrir framan þær seiðmagnaðar þulur, stigið um leið nokkur spor með tilheyrandi búkhreyfingum meðan föl birtan frá lítilli lýsiskolu framkallaði kynlegar skuggamyndir á mislita og hrjúfa hellisveggina.
Sporin hafa ef til vill verið upphaf danslistarinnar, þulan upphaf ljóðlistar og myndir grundvöllur myndlistarinnar. Sameiginlega hefur þessi athöfn, þ.e. helgiathöfn eða galdur, þjónað þannig bæði listinni og trúnni, trúnni að því leyti að það er trúin á ákveðin öfl sem eru manninum æðri sem þarna birtist og athöfnin gefur manninum kjark til að ganga til móts við erfiðleika lífsins, í þessu tilfelli veiðiskapinn sem var grundvöllur lífsviðurværis á þessum tíma.
Þetta er dæmi um það hvernig listin er samgróin lífi og trú mannsins allt frá forsögulegum tíma. Síðan hefur þetta þróast áfram þannig að list og trú eru í rauninni óaðskiljanleg. Þetta birtist í hinum ýmsu trúarbrögðum heims. Listin verður þá ekki skilin og listaverkin ekki túlkuð nema setja sig inn í trúarheimspekina og þann hugmyndaheim og trúarkenningar sem listaverkin tjá og túlka. Stundum eru þessi listaverk hluti af helgidómum, kirkjum, moskum og musterum þar sem byggingin og listaverkin mynda eina heild þannig að ekki verður sundur skilið.
„Að mínu mati er það fyrst og fremst trúin sem glæðir og vekur einstaklinginn til vitundar um dýpri sannleika og hvetur hann þannig til að skapa listaverk hvort sem það er mynd, Ijóð, lag eða saga“.
— Benedikt Gunnarsson
Telurðu að myndlistin geti skapað trú eða skapar trúin list?
Að mínu mati er það fyrst og fremst trúin sem glæðir og vekur einstaklinginn til vitundar um dýpri sannleika og hvetur hann þannig til að skapa listaverk, hvort sem það er mynd, ljóð, lag eða saga. Trúin hefur miklu dýpri rætur og er þessi mikli hvati og hefur því oft verið nokkurs konar lífgjafi á sviði listsköpunar, alveg eins og trúin er hvati til átaka fyrir manninn í samfélagslegu tilliti, í þjónustu við náungann og kærleika til hans. Á hinn bóginn getur listin svo glætt á huga manna á trúnni og dýpkað lífsskilning þeirra.
Nú hefur þú auðvitað málað ýmiss konar myndir en þar á meðal eru trúarleg verk. Hefurðu alla tíð gert trúarleg myndverk?
Nei, það er langt frá því. Aftur á móti rann það fljótt upp fyrir mér að sá sem ynni við sköpun væri að þjóna einhverju æðra afli og í hverju listaverki sem væri kannski vel eða allvel heppnað – sjaldan heppnast listaverk eins vel og maður hefði kosið – þá væri trúin eins og dulbúinn eða innbyggður þáttur í verkinu.
Listamaðurinn er oftast að spegla eða túlka sköpunarverkið, náttúruna, hrynjandi hennar – lífræna og ólífræna. Birta, ljós og skuggar í óendanlegri fjölbreytni litbrigða árstíðanna, hlutföll landslagsins, ásamt form- og litaandstæðum í föstum og fljótandi efnum, eru helstu kveikjuþættir minnar myndgerðar og hafa flestir ratað í stílfærðu formi inn í trúarleg verk mín. Ísland er enn í sköpun og veraldardjúpið þenst víst stöðugt út og dýpkar!
Benedikt Gunnarsson, listmálari, lýsir Maríumynd sinni í Háteigskirkju.
Hvernig tengjast þau trúarlegu verk, sem þú hefur unnið, þinni trú?
Fyrir það fyrsta er ég kristinn og það sakar ekki að geta þess að ég var strax sem barn mjög trúaður og þótti t.d. ákaflega gaman að kristnum fræðum í skóla. Frásögurnar af Jesú sem gekk um og gerði góðverk og dæmisögur hans snertu mig mikið. Um tvítugt varð ég aftur á móti heillaður af vísindum, tækni og efnishyggju. Þegar ég fór að lesa meira um vísindalegar kröfur og sannanir, mikilvægi þess að færa rök fyrir öllum hlutum og hvernig varað var við að taka mark á hjátrú og hindurvitnum dofnaði trúartilfinningin um stund. Jesús Kristur hvarf þó aldrei úr huga mér. Listnám mitt og lífsreynsla mótuðu hins vegar trúarvitund mína mjög á ný. Listasagan og fagurfræðilegar rannsóknir mínar á listfjársjóðum þjóða vítt og breytt um lönd og álfur hafa styrkt þessa tilfinningu og gefið listsköpun minni meiri dýpt. Listamaður er blanda af skáldi og vísindamanni, – manni sem leitast við að spegla flókna fjölvídda veröld í verkum sínum. Vísindin eru mér oft kveikja og lyftiafl sköpunar myndverka með trúarlegu inntaki. Í þessu sköpunarferli gilda ekki lögmál þekktra vísinda, heldur eru hér þau öfl að verki sem tengjast öðrum og meiri víddum og verða seint eða aldrei skilgreind. Ég lít ekki á vísindi og trú sem andstæður heldur sem tvo fleti sama veruleika þar sem listin býr á þriðja fletinum og varpar guðlegum ljóma sínum og töfrum inn í veröld mannsins, – hjarta hans og sál. Í þessum skurðpunkti mætast vísindahyggja mín, trú og lífsviðhorf.
Skiptir trúin þig þá miklu máli í daglegu lífi?
Já, hún snertir djúpt viðhorf mitt til lífsins, samfélags þjóða heims og eigin stöðu í veröldinni. Hún er að stórum hluta grundvöllur alls mats á velferð manna, hamingju þeirra og þroska – mannvirðingunni. Ég er ekki kirkjurækinn maður en ég rækta trú mína í listsköpunar- og kennslustörfum mínum. Einnig í faðmi fjölskyldunnar. Kristur er mér mjög hugstæður svo og María móðir hans. Þau hafa vaxið sem græðandi ljós og kraftur í vitund minni og sérhver dagur er ljós af þeirra ljósi.
„Sköpun, líf og ljós,“ var heiti sýningar Benedikts Gunnarssonar í Hallgrímskirkju.
Ertu í verkum þínum að boða trú eða leiða til íhugunar um trúarleg sannindi?
Ég er fyrst og fremst að íhuga þessi trúarlegu sannindi sjálfur og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Hér hef ég kirkjuverk mín í huga, þ.e. altarisverk úr mósaík og steinda glugga. Myndverk í kirkju flytja þögla, trúfræðilega predikun í listrænni formgerð sinni. Í gluggamyndum mínum tengist litaval og táknfræðiþættir bæði helgisiðum kirkjunnar og fagurfræðilegum þáttum myndlistar. Hrynjandin í breytilegri birtu dags og nætur gefur verkunum síkvikt líf og magnar þá dulúð sem tengist trúarinntaki þeirra. Kirkjugluggi er tákn heilags anda, farvegur ljóssins inn í helgidóminn og hjörtu mannanna. Ljósið er ígildi guðdómsins og tengir innri og ytri veruleika mannsins.
Víkjum nú að sýningu þinni á verkum eftir þig í anddyri Hallgrímskirkju þar sem þú sýnir fyrst og fremst trúarleg verk. Hvert er íhugunarefnið á sýningunni?
Á sýningunni skarast raunverulega nokkrir þættir. Ég kalla hana Sköpun, líf og ljós. Það eru sköpun, líf, trú og vísindi, einkum vísindalegar rannsóknir í eðlis- og geimvísindum, sem eru kveikja verkanna þannig að í þeim skarast trúin, listin og vísindin. Þetta hefur verið mér hugstætt lengi þegar ég hef verið að vinna að því sem við getum kallað nýsköpun myndmáls þar sem trúin er megininntak. Verkin byggja á Biblíunni, bæði Gamla og Nýja testamentinu. Ég tengi saman sköpunarsöguna , upphaf Biblíunnar og þessa sífelldu leit mannsins út í geiminn, leitinni miklu í óræðum víddum að nýjum uppgötvunum og nýrri sýn á sköpunarverkið mikla sem verður aldrei fullkannað. Verkin vísa til þeirrar leitar og það má segja að undirrótin sé trúin.
Nú er eitt verkanna þar af Jesú í Getsemane og ég hef annars staðar séð sama viðfangsefni á mynd eftir þig. Er Getsemaneglíma Jesú þér hugleikin?
Já , ég hef gert margar myndir af Jesú í Getsemane. Þetta viðfangsefni kemur upp aftur og aftur þegar maður hugsar um sjálfan sig og eigin glímu, lífsglímuna og baráttu einstaklingsins. Þetta fjallar líka um traust, um örvæntinguna, óttann, sársaukann og vonbrigðin. Þá er spurningin stóra þessi: Stenst ég álagið og hvað er til hjálpar manni í neyð? „Hvaðan kemur mér hjálp?“ stendur í helgri bók. Þar er svarað: „Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar“. Það er þessi angist sem mér finnst ögrandi að takast á við, hvort ég geti túlkað hana.
Ég hef yfirleitt sýnt Krist einan á þessum myndum og ekki opnað sýn til annarra persóna, hvorki lærisveinanna þar sem þeir sváfu eða hermananna sem komu til að handtaka hann. Á sýningunni túlka ég engilinn – birtuna og hjálpina – í mesta ljósstyrk myndar. Myndin byggist á andstæðum ljóss og skugga, myrkri og birtu. Þar sem birtan er í hámarki sé ég fyrir mér á bak við hana eða innbyggt í hana engilinn sem kom og veitti huggun og styrk á stund angistarinnar. Getsemaneglíma Jesú er mér þannig mjög hugstæð. Ég er ekki einn um það að hafa staðið frammi fyrir miklum ótta og skelfingu þótt það sé ekkert sambærilegt við þessa miklu angist Krists. Mesta angist, sorg og sársauki sem ég hef mætt var vegna sonarmissis. Þá fannst mér ég vera eins og einn úti á víðavangi, einn í mínum eigin Getsemanegarði og bar fram þessa spurn: Hvaðan kemur mér hjálp?
„Kraftaverkið – unglingarnir í eldsofninum“ eftir Benedikt Gunnarsson, listmálara.
Annað verk á sýningunni í Hallgrímskirkju vekur athygli en það er sótt í þríðja kafla Daníelsbókar og Viðauka við Daníelsbók í Apokryfum bókum Gamla testamentisins, þ.e. sagan af ungmennunum sem sungu Drottni lof í eldsofninum og björguðust úr eldinum fyrir kraftaverk. Hvað geturðu sagt okkur um þetta verk?
Fyrir rúmum 30 árum gerði ég fyrst myndir sem byggðust á þessum texta Apokryfu bókanna. Þá var ég að gera tillögu að myndum um kjarnorkuárásina á Hiroshima og Nagasaki í Japan. Ég man vel eftir þessum blóðugu stríðsátökum „þegar borgir stóðu í báli og beitt var eitri og stáli“ eins og segir í kvæði Steins Steinars. Myndirnar um kjarnorkuárásina fullgerði ég aldrei en texti Daníelsbókar um unglingana í eldsofninum tengist mjög í huga mínum þessum voðaverkum í Japan. Grundvallarmunur er þó hér á. Texti Daníelsbókar er seiðmagnaður og ógnandi en felur í sér boðskap varðandi trú og staðfestu sem launast með björgun úr lífshættu í formi kraftaverks Guðs. Í japönsku borgunum var miskunnarleysið algjört. Þar gerðist ekkert kraftaverk nema „kraftaverk“ dauðans. Hvar var Guðs engill þá? gæti einhver spurt. Enginn kann svar við þeirri spurningu.
Mynd mín heitir Kraftaverkið – unglingarnir í eldsofninum. Unglingarnir eru færðir í logandi eldsofninn af hatursmanni þeirra og óvini af því að þeir eru annarrar trúar. Dauðinn einn bíður þeirra allra. En Guð yfirgaf þá ekki og sendi engil sinn til að bjarga þeim. Eldurinn vann ekki á þeim og þeir komu heilir út úr eldsofninum og óvinur þeirra sér að það er þennan Guð sem á að tilbiðja en ekki þann sem hann dýrkaði sjálfur. Mér finnst þessi saga vera lýsandi dæmi um hið óskilgreinanlega, kraftaverkið sem er alltaf að gerast í lífi mannanna. Það gerist í hvert skipti sem líf fæðist og við sjáum það í vexti hverrar lífveru, allt til smæstu plöntu. Kraftaverkið sem slíkt er mér sífelld ráðgáta og til umhugsunar.
Hvert er gildi listarinnar og trúarinnar fyrir manninn í glímu hans við lífið og veruleikann?
Ég held ég gæti sagt að listin styrki manninn og göfgi tilfinningar hans og geri hann heilsteyptari. Fegurð lífsins opnast honum frekar fyrir tilstilli listarinnar. Listin og trúin geta einnig glætt kærleika mannsins til annarra manna vegna þess að trúin tengist, líkt og listin, frumeigindum mannseðlisins. Það er vandfundinn sá maður sem skynjar ekki máttarvöldin sem afl sem hann ræður ekki við. Þá upphefst virðing og tilbeiðsla. Í tilbeiðslunni reynir maðurinn að færa hugsun sína í listrænt form, hvort sem það er bænin mælt af munni fram, skrifaður texti, mótuð mynd eða tónverk. Þannig sprettur listin upp og verður ekki aðskilin frá trúnni.
Hefurðu oft verið beðinn um að gera myndverk í kirkjur?
Nei. Ég hef gert verk í sex kirkjur. Samtals eru steindu gluggarnir orðnir 44 og mósaíkverkin tvö. Kirkjurnar eru: Keflavíkurkirkja, Þykkvabæjarkirkja, Fáskrúðarbakkakirkja, Breiðabólsstaðarkirkja, Háteigskirkja og Suðureyrarkirkja.
Hvert slíkra verka er þér hugstæðast?
Það er án efa altarismyndin í kór Háteigskirkju. Þetta er stærsta og umfangsmesta trúarlega verk sem ég hef gert. Það útheimti mikla og stranga hugmyndavinnu, módelsmíði, byggingarfræðilegar athuganir á sjálfri kirkjunni og síðar stjórnun fullvinnslu myndarinnar og eftirlit á erlendri grund og einnig hér heima þegar myndin var múrfest. Myndin er lögð úr misþykku mósaíkefni sem að meginhluta er úr handsteyptu plötugleri og feneysku glersmelti. Fjölmargar tegundir náttúrusteina eru enn fremur notaðar í myndina, þar á meðal ýmsar tegundir marmara og hálfeðalsteina. Antikgler og tilhöggvið gler er einnig notað í myndinni ásamt blaðgulli og blaðsilfri. Myndin er um 40 m2. Fyrir tillögu mína að þessu verki fékk ég á sínum tíma fyrstu verðlaun í samkeppni íslenskra myndlistarmanna um tillögur að altarisverki fyrir kirkjuna. Vegna alls þessa er þetta verk mér einna hugstæðast allra kirkjuverka minna.
Listin er sterkur tjáningarmiðill og hún hefur augljóslega mikil áhrif á fólk og talar til þess í aðstæðum þess. Nýtir kirkjan sér listina nógu mikið í starfi sínu og tilbeiðslu?
Tónlistin hefur að minnsta kosti fylgt kirkjunni alla tíð, einnig orðsins list, sálmakveðskapur og hið talaða orð. Hér á Íslandi er þetta e.t.v. fátæklegra en víða annars staðar. Við sjáum það úti í hinum stóra heimi hve fljót kirkjan var að nýta sér mátt listarinnar. Kirkjan var á sínum tíma nokkurs konar fjölmiðill. Þar kom þetta allt saman, húsagerðarlistin, tónlistin, vefnaðarlistin, höggmyndalistin, málaralistin og síðan háþróuð vinnubrögð í öllum iðngreinum, svo sem múrverki, timbursmíði, málmsmíði og stundum sér maður ekki skilin milli iðnaðarhlutans og þess listræna. Þarna hefur kirkjan nýtt sér listina og háþróað handverk. Það er e.t.v. núna fyrst á síðustu tímum sem kirkjan hér á Íslandi er farin að nýta sér myndlistina fyrir alvöru, aðallega þó steint gler, mósaík og freskur.
Trú og list verða aldrei aðskilin. Fegurðin og kærleikurinn, sköpunin og lífið, allt tengist þetta saman í trúnni og listinni. Guð er kærleikur, Guð er ljós, segir einhvers staðar. Mér finnst einnig hægt að hugsa um Guð sem fegurð, fegurðina og kærleikann sameinuð. Og listin getur túlkað þetta. Þeir sem eru að fást við list mættu því gjarnan hugleiða þátt trúarinnar í sköpun allra listaverka. En alveg eins og sá sem er að vinna fyrir kirkjuna þarf að kynna sér trúna og helst að rækta hana með sér þá þurfa prestarnir einnig að vera vakandi fyrir mætti listarinnar og því hversu sterkt og áhrifamikið afl hún er.
Myndlistarverk í kirkju tengist predikuninni og öllu helgihaldi kirkjunnar beint og óbeint og á að hvetja manninn til hugleiðinga um kristin lífsviðhorf, um dýpstu rök tilverunnar og um stöðu mannsins í veröldinni. Það á að glæða fegurðarskyn, efla tilfinningaþroska og færa manninn nær Guði. Ég vona að kirkjan nýti sér sem mest mátt listarinnar í sókn sinni og baráttu fyrir útbreiðslu kristinna lífssanninda og fyrir verndun lífs á jörð.
„Örlaganótt í Getsemane“ eftir Benedikt Gunnarsson, listmálara.
Krossinn og ljós heilagrar þrenningar
Útskýring Benedikts Gunnarssonar listmálara á mósaíkmynd sinni í kór Háteigskirkju í Reykjavík
„Krossinn og ljós heilagrar þrenningar“ eftir Benedikt Gunnarsson, listmálara.
Mynd mína kalla ég „Krossinn og ljós heilagrar þrenningar“. Þungamiðja myndarinnar er krossinn, áhrifamesta trúartákn sem þekkist, tákn kristinnar trúar. Önnur tákn eru einnig felld inn í myndheildina og vísa til kristinna lífssanninda. Í upphafi hugmyndasamkeppninnar samdi ég eftirfarandi markmiðsþætti sem ég byggði alla hugmyndaleit og vinnsluþætti á:
Myndin verður að túlka háleitan, kristinn boðskap.
Myndformið verður að vera einfalt og auðskilið og taka mið af byggingarstíl kirkjunnar – innviðum hennar.
Viðfangsefnið skal leysast á persónulegan hátt og hafa fagurfræðilega skírskotun til framsækinnar samtímamyndlistar.
Þetta eru þeir þættir sem baráttan stóð um að samræma.
Eins og Iífið sjálft kviknar mynd mín af andstæðum. Þessar andstæður eiga rætur í tilfinningalegum átökum og eru burðarásar verksins. Form- og litfræðileg átök undirstrika svo þessa myndþætti. Myndin fjallar í knöppu formi um ljósið, ígildi lífsins sjálfs, andspænis hrópandi kvöl og nístandi sorg. Hún er um hið sístreymandi lífsins ljós sem aldrei slokknar þótt fari langt um dimman og kaldan veg himindjúpsins. Hún er um sannkristin, guðleg öfl sem megna að færa okkur huggun, frið og fegurð hvort heldur við tökumst á við harminn eða fögnum lífi á gleðistund. Hún er um lífssannindi sem alla varðar.
Á dimmbláum hringfleti lýsist upp helgasta tákn kristindómsins, krossinn. Birtu sína fær hann að ofan, frá því afli sem tákngert er efst í ytra hringformi myndar – tákni heilagrar þrenningar. Þar er guli hringurinn tákn eilífðar og hvíti upphleypti þríhyrningurinn tákn Guðs föður, sonar og heilags anda. Ytri hringurinn, sem umlykur myndkjarnann, krossinn og krossgrunninn, er ljóðrænt tilbrigði við hringtákn eilífðarinnar. Hringurinn er sömuleiðis ljósleiðari sem flytur fjölbreytta, gullna birtu kringum myndmiðjuna. Efst er birtan sterkust en dvínar eftir því sem neðar dregur í hringblámanum. Ljósið lifir samt áfram í myrkustu hlutum hringsins í formi lítilla blaðgullsflísa sem eru þar til að endurkasta hlýrri birtu.
Lóðrétti flötur krossins leiðir marglitt ljósið niður í blágráan hálfhring sem er hugsaður sem tákn jarðar og þjónar um leið sem baksvið altaris. Frá gullinni ljóssúlu jarðar, sem er í formrænni tengingu við krossinn, dreifist svo birtan, hin kristnu lífsgildi, í þúsundum litbrigða allt til endimarka jarðarinnar.
Krossinn er upphafinn í veldi ljóss og myndrænna formþátta. Hinir sterku litir hans hafa táknrænt og tilfinningalegt gildi um leið og þeir mynda sterkustu litfræðilegu átök verksins. Mósaíkverkið má einnig kalla persónulegan vitnisburð höfundar um djúpa sorg og huggun – eins konar sáttargjörð í grimmum tilfinningaátökum lífs og trúar. Hér er um sammannlega reynslu að ræða sem snertir veigamikið umfjöllunarstef í boðun kristinnar trúar.
Jesús Kristur er aflvaki þessa mósaíkverks, mynd hans lýsir alla innviði þess. Megi myndsýn mín og túlkun flytjast áfram og verða samgróin trúarvitund og lífi sem flestra manna.