suðureyrarkirkja.jpg

Tólf steindir gluggar vígðir í Suðureyrarkirkju

Samfelldur óður til almættisins

Tólf steindir gluggar eftir listmálarann Benedikt Gunnarsson voru vígðir í Suðureyrarkirkju fyrr í haust. Margrét Sveinbjörnsdóttir heimsótti Benedikt og fékk hann til að segja sér söguna að baki gluggunum.

Lesbók Morgunblaðsins, 16. desember 2000.

Gluggarnir steindu voru gjafir til kirkjunnar frá Súgfirðingum á þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi, gefnar til minningar um látna ástvini og til kirkjunnar og samfélagsins á Suðureyri. Gluggarnir voru formlega afhentir og vígðir í kirkjunni 10. september sl.

Benedikt rekur upphaf verksins til þess er hann var beðinn að gera verk í kirkjuna í tengslum við 60 ára afmæli hennar árið 1998. Hann gerði fjóra steinda glugga í kórhluta kirkjunnar, sem voru vígðir á páskum það ár. Gluggarnir voru gefnir kirkjunni til minningar um súgfirsku sæmdarhjónin Kristeyju Hallbjörnsdóttur og Sturlu Jónsson, fyrrverandi útgerðarmann, oddvita og organista við Suðureyrarkirkju.

„Þegar ég gerði þessa fjóra glugga þróuðust með mér það margar tillögur að ég hélt áfram og ákvað að gefa eina mynd til minningar um foreldra mína sem bjuggu á Suðureyri en þar leit ég líka sjálfur fyrst dagsins Ijós,“ segir Benedikt. Hann hélt áfram að vinna tillögur að fleiri myndum í kirkjuna og í framhaldinu þróaðist sú hugmynd að gefa Súgfirðingum kost á að festa kaup á þeim fullunnum og gefa kirkjunni þær, m.a. til minningar um látna ástvini. Undirtektir voru afar góðar, að sögn Benedikts, og ekki leið á löngu áður en allir gluggarnir voru pantaðir.

Kirkjuglugginn farvegur heilags anda

Benedikt Gunnarsson ásamt vinnuteikningum af hluta glugganna sem nú hafa verið settir upp í Suðureyrarkirkju. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Auk þess að hafa lengi starfað sem listmálari og kennari og haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum hefur Benedikt gert allmarga steinda glugga fyrir kirkjur, svo sem í Keflavíkurkirkju, Hábæjarkirkju í Þykkvabæ og Fáskrúðarbakkakirkju á Snæfellsnesi. Þekkt er einnig altarismynd hans úr mósaík í Háteigskirkju í Reykjavík. Í vinnu sinni við kirkjugluggana kveðst hann virkja ljósið sem gegnumstreymandi afl. Hann leggur áherslu á að kirkjugluggi sé ekki einungis op sem hleypi birtu inn til að menn sjái á sálmabókina, heldur sé hann í raun farvegur heilags anda.

„Allar glermyndir kirkjunnar eiga það sameiginlegt að vera samfelldur óður til almættisins. Kristin trú, kristin viðhorf til lífs og umhverfis, eru meginkveikimáttur þeirra, og þar á allt inntak verkanna rætur. Verkin spretta úr veröld ljóssins, sem lífið gaf og aldrei þverr,“ sagði listamaðurinn í ávarpi sínu við vígslu glugganna í Suðureyrarkirkju.

Ljósið sem forsenda alls lífs

Ein myndanna í kirkjunni er gefin til minningar um Sigríði Jónsdóttur ljósmóður og mann hennar, Ásgeir Jónsson vélstjóra. Gefendurnir voru 56 súgfirskar konur, sem flestar höfðu notið aðstoðar Sigríðar við fæðingu barna sinna, og mörgum þessara kvenna, ásamt mökum þeirra, hafði hún einnig tekið á móti í ljósmóðurstarfi sínu. „Þessi athyglisverða samstaða kvennanna á sér vart hliðstæðu í íslenskri kirkjulistarsögu, enda vakið athygli víða um land og jafnvel erlendis,“ segir Benedikt. Sjálfur fæddist Benedikt inn í birtuna á Suðureyri við sólarupprás 14. júlí árið 1929. „Nú er ég að virkja þessa birtu á sama stað og ég fæddist. Þannig dýpka ég þessa trúartilfinningu og þökk til lífsins fyrir að hafa fæðst,“ segir hann. Ljósmóðirin var fyrrnefnd Sigríður en Benedikt var fyrsta barnið sem hún tók á móti í sjálfstæðu ljósmóðurstarfi. „Hún var þá nýkomin vestur, ung stúlka,“ segir hann.

„Orðið ljósmóðir er í mínum huga eitt fegursta orð tungunnar og umlukt ljóma kærleika og vináttu. Í huga Súgfirðinga fylgir einmitt sá ljómi nafni Sigríðar og ljósmóðurstörfum hennar. Kveikja myndarinnar, ljósið sem forsenda alls lífs, fellur á táknrænan hátt vel að innsta kjarna Ijósmóðurstarfsins, sem felur í sér kærleiksríka þjónustu við líf og ljós, undrið mesta í allri sköpun, fæðingu bams inn í ljósveröld lífsins,“ segir Benedikt. Ekki kemur á óvart að heiti myndarinnar sem gefin var til minningar um Sigríði er „Verði ljós! Og það varð ljós.“

Hinn trúarlegi þáttur kjarninn í öllum listaverkum

Benedikt telur að hinn trúarlegi þáttur sé kjarninn í öllum góðum listaverkum, jafnvel þó að listamaðurinn viti ekki alltaf af því og lýsi því jafnvel yfir að verk hans séu ekki trúarleg. „Það er þetta afl sem vakir í honum sem gerir honum kleift að gera eitthvað sem er innblásið – þó að einstaklingurinn átti sig ekki endilega á því hvers eðlis það afl er,“ segir hann.

Krossinn og Ijós heilagrar þrenningar er yfirskrift þessa glugga, sem er einn hinna tólf steindu glugga sem vígðir voru í Suðureyrarkirkju á haustdögum.

Benedikt ber mikið lof á Listgler í Kópavogi sem sá um tæknilega framkvæmd við samsetningu glugganna. „Þetta er trúlega eina fyrirtækið sinnar gerðar sem starfrækt er á íslandi. Það vinnur með listamönnum og hefur á að skipa afar hæfum starfsmönnum á þessu sviði, þar á meðal er sjálfur forstjórinn, Yngvi Högnason. Samvinna mín og þeirra hefur verið umtalsverð á undanförnum árum og ætíð góð, þrátt fyrir margþátta krefjandi og seinunna tæknivinnu,“ segir hann.

Krossinn og Ijós heilagrar þrenningar er yfirskrift þessa glugga, sem er einn hinna tólf steindu glugga sem vígðir voru í Suðureyrarkirkju á haustdögum.

Previous
Previous

1998: Listin er samgróin lífi og trú mannsins