Rabb um Spán og Norður-Afríku
Tveir ungir málarar opna sýningu í dag á nokkru af verkum sínum í Listvinasalnum við Freyjugötu. Verður sýningin aðeins opin til næstkomandi fimmtudagskvölds, en þeir félagar eru á förum til Parísar.
Þjóðviljinn, 22. september 1951.
Á sýningu þeirra eru 50-60 krítar- pastell- og vatnslitamyndir en engin olíumálverk, þau komu þeir ekki með heim, en myndirnar sem á sýningunni eru máluðu þeir á s.l. vetri í Frakklandi. Því miður eru beztu myndirnar, þær sem mest eru unnar, geymdar úti, sögðu þeir.
Málarar þessir, Benedikt Gunnarsson og Eiríkur Smith, eru báðir kornungir menn. Þeir stunduðu báðir myndlistarnám í Handíðaskólanum og þvínæst dvöldu þeir í tvö ár við ríkislistasafnið í Kaupmannahöfn og ferðuðust auk þess nokkuð um Norðurlönd.
Gömlu söfnin á Spáni ágæt.
Benedikt Gunnarson árið 1954.
Síðastliðinn vetur dvöldu þeir í Frakklandi og Spáni og fara aftur til Frakklands um áramótin. S.l. sumar dvöldu þeir í Norður-Afríku. Söfn á Spáni með nútímalist kváðu þeir léleg, en gömlu söfnin ágæt, sérstaklega Prado-safnið í Madrid. Fólkið á Spáni er mjög elskulegt, sögðu þeir, og vill hjálpa manni allt sem það getur og gefa af nesti sínu þegar ferðast er í járnbrautarlestum, en járnbrautarlestir á Spáni eru víða kunnar fyrir seinlæti, fara hægt og eiga það til að hvíla sig, nema staðar úti á víðavangi um miðjar nætur.
Fallegir dansar — úrelt vinnubrögð.
Spánverjar eiga mikið af fallegum dönsum og eru margir byggðir á nautaatinu, t. d. nautabanadansinn, en nautaatið sjálft er villimannlegt. Fólkið er fátækt og vinnubrögð virðast úrelt, t.d. sáum við á allri ferðinni um Spán aðeins á einum stað dráttarvél, annars var alstaðar beitt uxum og múlösnum fyrir plóga.
Strangt lögreglueftirlit.
Eftirlit með fólki er mjög strangt á Spáni. Lögreglan er þrennskonar. Falangistar, lið sem sérstaklega er valið í, og eru þeir vopnaðir hríðskotabyssum. Þá er umferðalögreglan og loks járnbrautalögreglan, sem heldur vörð um allar járnbrautarstöðvar og gætir járnbrautarlínanna um landið. Járnbrautarlögreglan fylgir ekki lestunum sjálfum, hinsvegar eru óeinkennisklæddir njósnarar í vögnunum.
Annarsvegar auðkýfingar og hallir — Hinsvegar betlarar og hreysi.
— Þið voruð í Norður-Afríku í sumar?
— Já, við vorum í ýmsum borgum og ferðuðumst allmikið. Mótsetningarnar, t. d. í Tangier verka ákaflegt sterkt. Gömlu Arabahverfin með allskonar kofum og hreysum eru þar við hliðina á nýtízku stórhýsum. Þar ægir saman kaunum hlöðnum betlurum í tötrum og annarsvegar auðkýfingum alstaðar að úr heiminum, Aröbum með múlasna og útlendum ríkismönnum í kádiljákum. Arabarnir, hinir innfæddu, eru vinnuafl fyrir hina og eru svo fátækir að þeir klæðast strigafötum og ganga í skóm gerðum úr hjólbörðum.
Nokkurra daga tækifæri.
Sýning þessara ungu manna verður opnuð í Listvinasalnum kl. 2 e.h. fyrir styrktarmeðlimi Listvinasalsins, en þeir hafa ókeypis aðgang að öllum sýningum þar. Fyrir almenning verður opnað kl. 4 og verður sýningin opin daglega frá kl. 1 e.h. til 10 að kvöldi og henni lýkur á fimmtudagskvöldið kemur kl. 10. Frá myndunum hefur að vísu verið lítið sagit hér — enda verða menn hvort sem er að fara og sjá þær sjálfir.