Gamla kirkjan í Keflavík, sem byggð var 1914, hefur nú fengið steinda glugga og var lokið við að koma þeim fyrir á þriðjudagskvöld. Það eru 18 stórir gluggar, 12 í kirkjuskipinu og 6 í kórnum. Það er Systrafélag kirkjunnar, sem hefur beitt sér fyrir og gefið gluggana, en listamaðurinn er Benedikt Gunnarsson listmálari. Verkið var unnið í hinu þekkta verkstæði Oidtmansbræðra í Þýskalandi og hefur Ludovicus Oidtman verið hér við annan mann við að koma gluggunum fyrir.
Ásta Árnadóttir, sem er í glugganefnd kirkjunnar, veitti blaðinu þær upplýsingar, að þetta verkefni hefði verið lengi á döfinni. Systrafélagið hefði verið stofnað 1964 til að efla kirkjuna, og hefði áður verið gefnir bekkir, hluti í orgelinu o.fl. þegar miklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1965. Efndi systrafélagið til minningarsjóðs vegna kirkjuglugganna, sem ýmsir hafa gefið í minningargjafir, stórar og smáar. En gerð glugganna er mikið og dýrt átak. Kvaðst Ásta ákaflega ánægð með árangurinn. Gluggarnir séu mjög fallegir og sterkir, og setji mikinn svip á kirkjuna. Ætlunin er að hafa innan skamms hátíðarmessu í kirkjunni af þessu tilefni.
Mbl. hafði samband við Benedikt Gunnarsson og spurði hann hvort steindu gluggalistaverkin fjölluðu um sérstök viðfangsefni. Hann sagði að hver um sig sækti eitthvað í helgisiðahald kirkjunnar, þar sem notaðir eru ákveðnir litir eftir kirkjuhátíðum. Til dæmis er skírskotað í tveimur samstæðum gluggum til hvítasunnuhátíðarinnar, en þá er notaður rauður litur, sem jafnframt er litur andans og píslarvottanna sagði hann. Í einum er ríkjandi blár litur, litur Krists og Maríu, sem jafnframt á að minna á hið ójarðneska og guðdómlega. Glugginn þar sem hvítur litur er ríkjandi táknar jóladaginn, en sá litur er jafnframt notaður á páskadag og við kirkjuvígslur og táknar hreinleika, heilagleika og sakleysi. Græni liturinn táknar vor og von og vöxt hins andlega lífs o.s.frv. - Verkin eru sjálf byggð upp í geometrískum formum, ekki ströngum þó. Ég reyni að milda þau.
Benedikt sagði að í ráði væri að láta skýringar fylgja gluggunum, annað hvort að þær mætti sjá við hvern glugga eða gefinn verði út bæklingur með skýringum um kirkjuhaldið og tákni gluggana. Hann kvaðst hafa lokið við uppdrættina s.l. sumar og farið svo utan til Linnich í Þýskalandi og verið við meðan verkið var unnið þar. Þetta hefði verið ákaflega heillandi verkefni. Þetta væri í fyrsta skipti sem hann hefði unnið listaverk í þetta efni, og hefði hann nú fengið ýmsar hugmyndir í framhaldi af því.
Ludsvikus Oidtman kom einnig hingað með steinda glugga, sem fyrirtæki hans hefur framleitt í kapellu systranna í Garðabæ, og er að setja þá upp.
https://timarit.is/page/1489896?iabr=on#page/n17/mode/2up/