Hvítasunna - kraftbirting heilags anda

Önnur tillaga Benedikts Gunnarssonar

Á eftir verður samsæti. Þar mun Benedikt Gunnarsson listmálari afhenda söfnuðinum málverk til eigu. Verkið sem hann nefnir Hvítasunna - kraftbirting heilags anda er ein af tillögum hans sem lögð var fram í samkeppni um kórmynd fyrri hluta árs 1986. Þá var önnur tillaga Benedikts að gerð kórmyndar fyrir valinu sem ber heitið Krossinn og ljós heilagrar þrenningar. Sú mynd var unnin í mósaík og er gjöf Kvenfélags Háteigssóknar til kirkjunnar og var afhent við hátíðarmessu í Háteigskirkju 18. desember 1988.

Kveikjuna að finna í postulasögunni

Benedikt segir kveikjuna að myndinni texta í postulasögunni: „Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og að dynjandasterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“

Benedikt segir myndina fyrst og fremst fjalla um ljósið og þann skapandi kraft sem felst í hugsun um heilagan anda og þennan stofndag Kristins safnaðar, hvítasunnudag.

Form myndarinnar er óhlutbundið - engar manneskjur eru sýndar í myndinni. Í henni eru sterkir litir og mikið ljósflæði sem vísar til birtu Krists og ríkis hans.

„Viðfangsefni altarismynda fyrri alda voru ætíð hlutbundin. Á seinni tímum hafa hinsvegar ný viðhorf undir merkjum framsækinnar nútímamyndlistar sett mark sitt í auknum mæli á myndgerð fyrir kirkjur vítt og breitt um lönd og álfur. Þessi hvítasunnumynd mín ásamt altarismynd kirkjunnar eru til marks um þessi viðhorf. Í þeim er að finna vissa nýsköpun trúarlegs myndmáls, trúarlega tign og fagurfræðilega reisn.“

Benedikt segist hafa óskað eftir því að á sunnudaginn þegar myndin verður afhent verði til hliðar við hana sýnt líkan af kórnum með innfelldri myndtillögu en líkanið gerði Benedikt í tilefni af samkeppninni á sínum tíma.

„Þá skilst betur hvernig formgerð myndarinnar var hugsuð en myndin í líkaninu sýnir þrívíð áhrif hennar og litræn tengsl við kirkjugólf, altari og altarisbúnað. Einnig sýnir líkanið stöðu altaris í heildarmynd kirkjuskips og kórboga. Margir leiða ekki hugann að því að grunnur kirkjunnar er krosslaga og upp af þessu helga tákni rís kirkjan.“

Altarið og verkið sjálft þarf að mynda eina heild

„Til gamans má geta þess þegar dómnefndarmenn skoðuðu allar innsendar tillögur meðan á samkeppninni stóð þá vörpuðu þeir litskyggnumyndum inn í kórbogann. Þá virtist þeim þegar þeir skoðuðu þessa mynd eins og það væri kviknað í kirkjunni og töldu tillöguna ekki við hæfi, hún væri of sterk og ofsafengin. Ég var þó nokkuð ánægður með tillöguna vegna þess að hún hefði orðið ákveðin nýjung í íslenskri kirkjulist. En hún hefði jafnframt orðið mjög dýr í framkvæmd.“

Benedikt segir reyna á marga þætti í hæfni myndlistarmannsins við gerð altarismyndar.

„Það er erfitt að fella eigin hugmynd að verki annars manns, í þessu tilfelli arkitektsins, án þess að slaka á kröfum til eigin túlkunar og vinna sem eina heild altarið og verkið sjálft. En altarið, borð Drottins er æðsti bænastaður kirkjunnar. Þar er Kristur sjálfur nálægur.

Þegar ég vinn altarismyndir þá hugsa ég gjarnan um lífið og sköpunina og stöðu mannsins í heiminum. Síðan koma allir þessir verkfræðilegu þættir sem þarf að hugsa um þegar hugmynd á að færast yfir í sérstakt efni, hvort sem það er á gler, mósaiksteina eða önnur efni. Þá reynir á að bræða saman hugmyndafræði, skapandi hæfni og ný viðhorf í túlkun, - þetta er glíman sem ég stóð frammi fyrir. Stundum gleymdi ég við þessu vinnu stað og stund og áður en varði var komin nótt og nýr dagur.“

https://timarit.is/page/3524730?iabr=on#page/n12/mode/2up/search/%22benedikt%20gunnarsson%22

Previous
Previous

1982: Fáskrúðarbakkakirkja

Next
Next

1994: Hábæjarkirkja